Fara beint í efnið

25. janúar 2024

Skipulagsstofnun og SSH gefa út leiðbeiningar um sjálfbært skipulag og vistvænar samgöngur

Skipulagsstofnun og SSH gefa út leiðbeiningar um sjálfbært skipulag og vistvænar samgöngur

Skipulagsstofnun og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) hafa gefið út Mannlíf, byggð og bæjarrými: leiðbeiningar um sjálfbært skipulag og vistvænar samgöngur í þéttbýli. Þær voru unnar í samstarfi við Teiknistofuna Stiku en einnig komu EFLA og Landmótun að gerð leiðbeininganna.

Rík áhersla á samráð

Verkefnið er hluti af útfærslu stefnumörkunar um byggð og bæjarrými sem birtist í landsskipulagsstefnu og í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Leiðbeiningarnar hafa verið í smíðum undanfarin misseri og var lögð rík áhersla á samráð við bæði fagaðila sem og almenning. Leiðbeiningarnar voru þannig sendar til umsagnar hjá rýnihópi ásamt því að vinnslutillaga var til kynningar síðastliðið sumar og haust.

Vefútgáfa

Þessi fyrsta útgáfa leiðbeininganna verður vefútgáfa sem er aðgengileg á vef Skipulagsstofnunar. Þar er hægt að skoða leiðbeiningarnar í heild eða hvern kafla fyrir sig. Einnig er hægt að sækja myndefni leiðbeininganna til að nota í kynningar og annað efni. Það er von þeirra sem að leiðbeiningunum koma að þær muni nýtast öllum þeim sem láta sig skipulagsmál varða. Það á við um fagstéttir, embættisfólk, kjörna fulltrúa og vitaskuld almenning. Leiðbeiningunum er ætlað að vera lifandi vegvísir að sjálfbæru skipulagi með samþættingu byggðar og samgangna, þar sem gæði byggðar og fjölbreytt bæjarrými sem iða af mannlífi, eru leiðarljósið.

Mannlíf, byggð og bæjarrými – leiðbeiningar um sjálfbært skipulag og vistvænar samgöngur í þéttbýli