Fara beint í efnið

31. júlí 2020

Skimun til að meta útbreiðslu COVID-19 í íslensku samfélagi

Íslensk erfðagreining vinnur nú aftur að skimun einstaklinga fyrir COVID-19 í samvinnu við sóttvarnalækni. Tilgangurinn er að kanna útbreiðslu veirunnar hér á landi svo hægt sé að meta þörf fyrir frekari aðgerðir. Mögulega verður einnig hægt að rekja uppruna smitanna sem nú eru í gangi.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Íslensk erfðagreining vinnur nú aftur að skimun einstaklinga fyrir COVID-19 í samvinnu við sóttvarnalækni. Tilgangurinn er að kanna útbreiðslu veirunnar hér á landi svo hægt sé að meta þörf fyrir frekari aðgerðir. Mögulega verður einnig hægt að rekja uppruna smitanna sem nú eru í gangi.

Þrír hópar munu fá boð:

  • Einstaklingar í sóttkví eftir að hafa verið í samskiptum við einstaklinga sem greindust með veiruna nú nýlega. Fólk á landsbyggðinni í þessari stöðu fær leiðbeiningar um hvar og hvenær það geti farið í sýnatöku hjá heilsugæslunni.

  • Fólk sem tengist einstaklingum í einangrun á einhvern hátt, sem ákveðið var að þyrftu þó ekki að fara í sóttkví, til dæmis, ef talsverður tími var frá samskiptum við þann smitaða.

  • Handahófskennt úrtak á þeim svæðum þar sem sem smit hafa komið upp undanfarið.

Fólk fær boð um þátttöku með textaskilaboðum. Þar koma fram upplýsingar um vefslóð sem notuð er til að skrá sig í sýnatöku. Við skráningu fær þátttakandi ítarlegar upplýsingar um hvar sýnatakan fer fram.

Sóttvarnalæknir hvetur alla sem fá boð frá Íslenskri erfðagreiningu til að taka þátt og vera með í skimuninni.

Mikilvægt er að skimunin og verkefnið í heild sinni gangi hratt fyrir sig til að árangurinn nýtist sem best.

Skimun fer fram í Turninum í Kópavogi. Athugið að einstaklingar í sóttkví mega ekki fara inn í húsnæði Þjónustumiðstöðvar rannsóknarverkefna í Turninum, heldur eru sýni tekin fyrir utan eins og hjá einstaklingum með einkenni COVID-19 hjá heilsugæslunni. Mikilvægt er að hafa í huga að neikvætt sýni hjá einstaklingi í sóttkví vegna tengsla við þekkt smit verður ekki til þess að aflétta sóttkví.

Afar mikilvægt er að einstaklingar sem hafa farið í skimun og fengið neikvæða niðurstöðu hafi samband við heilsugæslu eða Læknavaktina ef einkenni koma fram sem geta bent til COVID-19.

Sóttvarnalæknir