Fara beint í efnið

19. apríl 2021

Skimun fyrir COVID-19

Í ljósi aukinnar útbreiðslu COVID-19 og hópsmita undanfarna daga hefur sóttvarnalæknir ákveðið bjóða einstaklingum sem hafa tengsl við nýlega greind tilfelli i skimun fyrir veirunni.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Í ljósi aukinnar útbreiðslu COVID-19 og hópsmita undanfarna daga hefur sóttvarnalæknir ákveðið að bjóða einstaklingum sem hafa tengsl við nýlega greind tilfelli í skimun fyrir veirunni.

Jafnframt hefur verið ákveðið að ráðast í tilviljunarkennda skimun í samfélaginu með aðstoð Íslenskrar erfðagreiningar.

Fólk mun því eiga von á boði í þátttöku í skimun og eru allir þeir sem fá slíkt boð hvattir til að þekkjast það og aðstoða þannig við að ná utan um útbreiðslu veirunnar.

Skimun þessi er framkvæmd að frumkvæði sóttvarnalæknis og á hans ábyrgð. Sýnataka vegna tilviljunarkenndrar skimunar mun fara fram hjá Þjónustumiðstöð rannsóknaverkefna í Turninum, Smáratorgi 3 í Kópavogi. Sýnin tekin í þeirri skimun verða greind hjá Íslenskri erfðagreiningu. Sýni verða eingöngu nýtt í þeim tilgangi að kanna hvort þátttakandi greinist með COVID-19 og verður öllum neikvæðum sýnum eytt að greiningu lokinni. Jákvæð sýni verða raðgreind til að varpa ljósi á hvaða veirustofn er um að ræða, en er eytt að þeirri greiningu lokinni. Einungis er verið að raðgreina erfðaefni veirunnar en ekki þess einstaklings sem sýnið tilheyrði.

Sýnataka vegna tengsla við nýlega greind tilfelli fer fram hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Sýni eru greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítala og er neikvæðum sýnum eytt að lokinni sýnatöku. Jákvæð sýni eru send til raðgreiningar hjá Íslenskri erfðagreiningu og eytt að henni lokinni.

Niðurstöður verða gerðar aðgengilegar í gegnum Mínar síður á Heilsuvera.is. Reynist sýni jákvætt munu rakningateymi almannavarna og göngudeild COVID-19 á Landspítala fá upplýsingar um viðkomandi aðila og hafa samband við viðkomandi til að afla upplýsinga vegna smitrakningar og tryggja viðkomandi einstaklingum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.

Sóttvarnalæknir