Fara beint í efnið

22. mars 2020

Samkomur takmarkaðar enn frekar

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis, að takmarka samkomur enn frekar en áður vegna hraðari útbreiðslu Covid-19 í samfélaginu.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis, að takmarka samkomur enn frekar en áður vegna hraðari útbreiðslu COVID-19 í samfélaginu. Viðburðir þar sem fólk kemur saman verða takmarkaðir við 20 manns í stað 100 áður. Við öll mannamót þarf auk þess að tryggja að nánd milli manna verði yfir tveimur metrum. Ákvörðunin tekur gildi á miðnætti annað kvöld. Takmörkun á skólahaldi verður óbreytt.

Sóttvarnalæknir hefur haft þessar aðgerðir til skoðunar síðustu daga, með hliðsjón af þróun mála hér á landi, tilmælum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og í ljósi aðgerða annarra ríkja. Ákvörðun heilbrigðisráðherra um frekari takmarkanir eins og sóttvarnalæknir leggur til á sér stoð í 12 gr. sóttvarnalaga.

Tilkynningu um takmarkanir á samkomum má lesa á vef heilbrigðisráðuneytisins, en ítarlegar upplýsingar um samkomubannið má finna á upplýsingavef embættis landlæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra; Covid.is.