Fara beint í efnið

4. október 2019

Samkeppnin Tóbaks- og rafrettulaus bekkur að hefjast

Hin árlega samkeppni Tóbakslaus bekkur hefur fengið nýja yfirskrift og heitir nú Tóbaks- og rafrettulaus bekkur. Samkeppnin er nú að hefjast hér á landi í tuttugasta og fyrsta sinn. Skráning er þegar hafin og þarf að skrá bekki í síðasta lagi 16. nóvember 2019 á vefsíðunni Tóbaks- og rafrettulaus bekkur.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Hin árlega samkeppni Tóbakslaus bekkur hefur fengið nýja yfirskrift og heitir nú Tóbaks- og rafrettulaus bekkur. Samkeppnin er nú að hefjast hér á landi í tuttugasta og fyrsta sinn. Skráning er þegar hafin og þarf að skrá bekki í síðasta lagi 16. nóvember 2019 á vefsíðunni Tóbaks- og rafrettulaus bekkur.

Ný kynslóð af hetjum; Reyksugan, Lyktareyðirinn, Strokarinn, Tölvan og Hugríkur leiða herferðina og hjálpa okkur að útrýma tóbakinu og rafrettunum fyrir fullt og allt með nýjar hugmyndir og sköpunargleðina að vopni.

Öllum sjöundu, áttundu og níundu bekkjum í grunnskólum landsins stendur til boða að taka þátt ef enginn nemandi í viðkomandi bekk notar tóbak eða rafrettu. Á keppnistímabilinu verða dregnir út nokkrir heppnir tóbaks- og rafrettulausir bekkir og allir í bekknum fá senda litla gjöf.

Hetjuþema - Tíu bekkir fá verðlaun fyrir lokaverkefni

Í vor geta samtals tíu bekkir unnið til verðlauna með því að senda inn lokaverkefni. Þeir bekkir sem velja að senda inn lokaverkefni geta unnið fé til að ráðstafa eins og bekkurinn kýs að gera. Upphæðin nemur 5.000 krónum fyrir hvern skráðan nemanda í bekknum.

Sem fyrr segir eru Reyksugan, Lyktareyðirinn, Strokarinn, Tölvan og Hugríkur hetjur af nýrri kynslóð sem aðstoða okkur við að útrýma tóbakinu og rafrettunum fyrir fullt og allt með nýjar hugmyndir og sköpunargleðina að vopni. Reyksugan sogar til sín allan reyk, Lyktareyðirinn getur breytt tóbakslykt í ilm af nýbökuðum smákökum, Strokarinn þurrkar út allt tóbak og rafrettur, Tölvan reiknar út hversu ótrúlega mikið tóbak og rafrettur kosta okkur og Hugríkur skrifar nýja, tóbaks- og rafrettulausa framtíð með hugmyndaauðgina að vopni. Markmiðið í ár er að hjálpa þessum hetjum að finna nýjar leiðir til að berjast við tóbakið og rafrettuna.

Við hvetjum ykkur til að skrifa sögur þessara persóna, skapa nýjar persónur eða gera hvað annað sem ykkur dettur í hug. Tilgangurinn er einungis að fá nýjar, ferskar og skemmtilegar hugmyndir sem munu móta tóbaks- og rafrettulausa framtíð.

Möguleika á að vinna til verðlauna eiga aðeins þeir bekkir sem senda inn lokaverkefni. Verkefnin geta verið með ýmsu móti, t.d. veggspjöld, auglýsingar, stuttmyndir eða fræðsluefni um tóbak og rafrettur.

ATH! Stuttmyndir mega ekki vera lengri en tíu mínútur.

Úrslitin verða tilkynnt eftir miðjan maí 2020.

Hægt er að skoða lokaverkefni verðlaunahafa í síðustu samkeppni í frétt um úrslitin 16. maí 2019.

Skráning og allar nánari upplýsingar eru á vefsíðu keppninnar: Tóbaks- og rafrettulaus bekkur.