14. maí 2020
14. maí 2020
Rannsókn um tengsl íslenskra ungmenna við foreldra, vini og skóla
Ný rannsókn sýnir að flest íslensk ungmenni eru með góð tengsl við foreldra, vini og skóla. Afar sjaldgæft er að börn og unglingar hafi slök tengsl á öllum þremur sviðunum. Mikilvægt er að finna þau og aðstoða.
Embætti landlæknis hefur gefið út skýrsluna Félagstengsl íslenskra barna og ungmenna sem unnin var af Ársæli Arnarssyni prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands, í samvinnu við verkefnastjóra á lýðheilsusviði embættis landlæknis. Skýrslan er unnin úr íslenskum gögnum alþjóðlegu rannsóknarinnar HBSC sem varðar heilsu og líðan skólanema. Markmið rannsóknarinnar er að kanna tengsl barna í 6., 8. og 10. bekk við foreldra sína, skóla og vini, ásamt ýmsum þáttum er varða heilsu þeirra og líðan.
Niðurstöður leiddu í ljós að flest íslensk ungmenni eru með góð tengsl við foreldra, vini og skóla. Þau sem á annað borð eru með einhver slök tengsl, hafa þau aðeins á einu sviði og þá oftast við vini. Afar sjaldgæft er að börn og unglingar hafi slök tengsl á öllum þremur sviðunum eða 3% af heildarfjölda.
Ef miðað er við fjölda grunnskólanema á hverjum tíma má þó gera ráð fyrir að þessi staða eigi við um 700 börn og unglinga í þessum aldurshópi. Þessi ungmenni eru verulega illa stödd hvað varðar félagslega stöðu, heilsu, líðan og framtíðarhorfur og því mikilvægt að finna þau og aðstoða.
Samskipti við foreldra höfðu mest áhrif á líðan ungmenna, en tengsl við skóla mest áhrif á áhættuhegðun. Tengsl við vini höfðu vissulega áhrif á líðan, en mun minni en áhrif foreldra og áhugavert var að sjá að tengsl við vini höfðu engin marktæk áhrif á áhættuhegðun. Þau höfðu hins vegar mest áhrif á einelti. Ungmenni með sterk vinatengsl voru mun ólíklegri til þess að hafa orðið fyrir einelti eða lagt aðra í einelti.
Efnahagsstaða foreldra, samkvæmt mati ungmenna, hafði mikil áhrif á tengsl á öllum sviðum. Öll ungmenni sem sögðust búa við mjög slæman fjárhag höfðu einhver slök tengsl og þriðjungur til helmingur þeirra hafði slök tengsl á öllum sviðum. Þessar tölur ber þó að túlka með fyrirvara þar sem mjög fá ungmenni eru að baki þeim. Engu að síður draga niðurstöðurnar fram mikilvægan ójöfnuð til heilsu og vellíðanar meðal barna og ungmenna sem gefa þarf nánari gaum. Einnig sýndu niðurstöður að börn og ungmenni sem skilgreindu kyn sitt sem annað en strákur eða stelpa voru mun verr stödd hvað félagstengsl varðar en þessi hópur, þótt fámennur væri, var mun líklegri til að eiga erfitt samband við bæði foreldra, vini og skóla.
Eftir því sem félagstengsl ungmenna voru slök á fleiri sviðum, þeim mun neikvæðari áhrif hafði það á heilsu þeirra og líðan. En þótt ungmenni hefðu slök tengsl á tveimur sviðum (t.d. við skóla og vini), þá rétti það hlut þeirra nokkuð á flestum mælingum ef tengslin voru að minnsta kosti góð á einu sviði og þar skiptu tengslin við foreldra langmestu máli. Börn og ungmenni sem höfðu öll tengsl slök voru langtum líklegust til að vera einmana, hafa sállíkamleg einkenni, lenda í slagsmálum, leggja í einelti, vera lögð í einelti, drekka áfengi og reykja.
Niðurstöður skýrslunnar verða kynntar á fjarfundi í samstarfi við Náum áttum þriðjudaginn 19. maí nk. kl. 15: 00 -16:00, þar sem einnig verður erindi frá Barnaverndarstofu.
Hér er tengill á fjarfundinn: https://zoom.us/meeting/register/tJUqc-ivrz4iEtKYMHxe3jI3g4RBBzclOcq0 (Þegar þú hefur skráð þig inn kemur póstur til að staðfesta skráningu og boð um að taka þátt í fundinum).
Nánari upplýsingar veita
Sigrún Daníelsdóttir, lýðheilsusviði embættis landlæknis
Rafn Magnús Jónsson, lýðheilsusviði embættis landlæknis