Fara beint í efnið

1. október 2020

Rafrænt umboð í Heilsuveru, vegna afhendingar lyfja í apóteki

Frá og með 1. október 2020 er hægt að nota Heilsuveru til að veita umboð til afhendingar lyfja.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Frá og með 1. október 2020 er hægt að nota Heilsuveru til að veita umboð til afhendingar lyfja. 

Einungis sá sem fær lyfi ávísað fyrir sig eða barn sitt yngra en 16 ára má sækja lyfið í apótek án umboðs. Þó er sá möguleiki fyrir hendi að veita öðrum umboð til að sækja fyrir sig lyf.                              

Þess eru dæmi að lyf hafi verið svikin út í apóteki. Lyfjastofnun telur því að skerpa verði á framkvæmd reglna um afhendingu lyfja sem kveðið er á um í reglugerð nr. 740/2020 um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja.

Reglugerðin tók gildi 1. október 2020. Í henni er gerð krafa um að lyf verði aðeins afhent eiganda lyfjaávísunar eða umboðsmanni hans. Í öllum tilvikum þarf að framvísa persónuskilríkjum, hvort sem sá sem leysir lyfið út er eigandi þess eða umboðsmaður hans.

Embætti landlæknis hefur útbúið rafræna lausn í Heilsuveru. Þeir sem eru 16 ára eða eldri geta nú með einföldum hætti veitt öðrum umboð til að sækja fyrir sig ávísuð lyf í apótek. Meira öryggi fylgir því að veita rafrænt umboð með þessum hætti en á pappír, enda er krafist auðkenningar með rafrænum skilríkjum í Heilsuveru.

Þegar umboð hefur verið skráð í Heilsuveru gildir það í öllum apótekum landsins. Notendur Heilsuveru hafa góða yfirsýn yfir hverjum þeir hafa veitt umboð og geta með einföldum hætti veitt fleirum umboð og breytt eða afturkallað áður veitt umboð. Sjá leiðbeiningar um skráningu umboðs á Mínum síðum í Heilsuveru.

Embætti landlæknis fagnar þessum tímamótum. Þau eru mikilvægt skref í auknu öryggi við afhendingu lyfja. Embættið hvetur alla til að nýta sér rafræna lausn Heilsuveru til skráningar umboðs þegar þörf er á slíku.

Rétt er að taka fram að meginreglan verður sú að umboð skulu ávallt veitt rafrænt í Heilsuveru. Í sérstökum undantekningartilvikum verður heimilt að taka við umboði á pappírsformi. Um viðamiklar breytingar á hugbúnaðarkerfum apóteka er að ræða og má því búast við einhverjum hnökrum allra fyrst í innleiðingu rafrænna umboða en frá miðjum október ætti ferlið að ganga snurðulaust fyrir sig.

Frekari upplýsingar eru á vef Lyfjastofnunar, hjá starfsfólki apóteka um land allt og á Mínum síðum á vefnum Heilsuvera.is