23. maí 2018
23. maí 2018
Ráðleggingar sóttvarnalæknis vegna ferða Íslendinga á heimsmeistarakeppni í fótbolta í Rússlandi 2018
Flestir ferðamenn til Rússlands þurfa ekki að fá sérstakar bólusetningar fyrir ferðina. Þó er rétt að huga að eftirfarandi:
Flestir ferðamenn til Rússlands þurfa ekki að fá sérstakar bólusetningar fyrir ferðina. Þó er rétt að huga að eftirfarandi:
Börn og unglingar sem ekki eru fullbólusett miðað við aldur ættu að fá ráðleggingar á heilsugæslustöð til að bæta úr því fyrir ferðina.
Allir sem eru eldri en 23 ára og hafa ekki fengið stífkrampa- og barnaveikibólusetningu síðan í grunnskóla ættu að fá hana. Mænusótt er ekki lengur landlæg í Rússlandi en ef ekki hefur verið hresst upp á þá bólusetningu á fullorðinsárum er hægt að fá hana með stífkrampa-, barnaveiki- og kikhóstabólusetningu í einni sprautu – þeir sem eru ekki vissir eða hafa bara fengið stífkrampa án barnaveikibólusetningar sl. 10 ár geta fengið samsettu sprautuna núna. Flestir fá eymsli eftir þessa bólusetningu en það á endilega að nota handlegginn áfram, þá fara eymslin fyrr úr honum.
Allir fæddir eftir 1970 sem telja sig ekki hafa fengið mislingasjúkdóm eða mislingabólusetningu ættu að fá hana sem fyrst því aukaverkanir geta komið fram eftir meira en viku (gefin með hettusótt og rauðum hundum í einni sprautu) – það er mikið um mislinga í Evrópu um þessar mundir og við sjáum annað slagið mislinga hjá Íslendingum sem hafa verið að ferðast.
Vatnsgæði geta verið misjöfn og eins er alltaf viss hætta á matarbornum sýkingum þegar stórir hópar eru á ferð. Því þarf að gæta hreinlætis þegar borðað er og huga að því að drekka ekki kranavatn eða nota það til tannburstunar ef mælt er gegn því að það sé drukkið. Sníkjudýr geta þolað klór og önnur efni sem eru notuð til sótthreinsunar kranavatns. Ef grunur leikur á iðrasýkingu eftir ferðalag á framandi slóðir er rétt að ræða við lækni.
Það er hætta á Lyme sjúkdómi og blóðmítlaborinni heilabólgu (Tick-Borne Encephalitis) víða í Rússlandi, þ. á m. í St. Pétursborg, Kaliningrad, Volgograd, en það er ólíklegt að ferðamenn komist í tæri við mítlana sem bera sýkingarnar á hótelherbergjum eða íþróttaleikvöngum. Ef það verða einhverjar stundir í almennings- eða lystigörðum og ennþá frekar gönguferðir í gras- eða skóglendi þá er mikilvægt að nota góða skordýrafælu, t.d. DEET í a.m.k. 30% og helst 50% styrkleika. Þessar pöddur þola eitrið betur en moskítóflugur og því þarf að endurnýja áburðinn á um 2ja klst. fresti. Eftir útivist þarf að skoða sig og ferðafélaga vel og fjarlægja allar pöddur sem fyrst (sjá upplýsingar um skógarmítil) á vefsíðu Embættis landlæknis). Ef hitasótt kemur fram innan mánaðar eftir ferðalagið, eða útbrot sem gætu bent til Lyme sjúkdóms (jafnvel meira en mánuði eftir ferð) er rétt að ræða við lækni.
Ef ferðamenn í Rússlandi eru bitnir af ókunnum dýrum skal leita læknis.
Upplýsingar um bólusetningar má nálgast á heilsuvera.is og á heilsugæslustöðvum.
Sóttvarnalæknir