10. október 2019
10. október 2019
Óviðunandi bið eftir innlögn
Í sumar gerði embætti landlæknis eftirfylgniúttekt á stöðunni á bráðamóttöku Landspítalans í kjölfar hlutaúttektar í desember 2018. Helstu niðurstöður eru að bráðamóttöku tekst áfram að sinna bráðahlutverki sínu. Ekki er töf á að þeir sem veikastir eru fái þjónustu og meðaldvalartími þeirra sem útskrifast heim er að heita óbreyttur, eða um 5 klst.
Í sumar gerði embætti landlæknis eftirfylgniúttekt á stöðunni á bráðamóttöku Landspítalans í kjölfar hlutaúttektar í desember 2018.
Helstu niðurstöður eru að bráðamóttöku tekst áfram að sinna bráðahlutverki sínu. Ekki er töf á að þeir sem veikastir eru fái þjónustu og meðaldvalartími þeirra sem útskrifast heim er að heita óbreyttur, eða um 5 klst.
Vandinn liggur í þjónustu við sjúklinga sem bíða innlagnar á spítalann, eftir komu á bráðamóttöku. Þannig er meðaldvalartími þess hóps enn allt of langur, eða 22,8 klst. í ágúst sl. og hefur aldrei verið lengri utan flensutímabila. Þá fer þeim sjúklingum fjölgandi sem dvelja svo dögum skiptir á bráðamóttökunni. Ástæður þessa eru skortur á hjúkrunarfræðingum á legudeildum sem og að hlutfallslega fleiri sjúklingar leggjast nú inn af bráðamóttöku en áður vegna flutnings bráðastarfsemi hjartagáttar. Húsnæði bráðamóttöku ber engan veginn þann fjölda sjúklinga sem þar dvelja einatt og eru gerðar alvarlegar athugasemdir við það í skýrslunni. Þá er sýkingavörnum verulega ábótavant við þessar aðstæður.
Svokallaður útskriftarvandi Landspítala — það er að einstaklingar sem hafa lokið meðferð geti ekki útskrifast vegna skorts á úrræðum utan spítalans — hefur hins vegar lagast nokkuð og er að þakka opnun fleiri hjúkrunarrýma og sjúkrahótels.
Í skýrslunni er farið yfir viðbrögð Landspítala við ábendingum úr fyrri úttekt og getið um aðgerðir heilbrigðismálaráðuneytis. Fram kemur að brugðist hefur verið við flestum fyrri ábendingum. Lagðar eru fram nýjar ábendingar þar sem brýnast er talið að Landspítali opni legudeild sem taki við sjúklingum af bráðamóttökunni eða að sjúklingum verði dreift með öðrum hætti þannig að ekki dveljist svo margir á bráðamóttöku hverju sinni. Þá eru ábendingar er varða sóknarfæri í sýkingavörnum á bráðamóttöku.
Fyrirspurnum vegna skýrslunnar skal beina til
Kjartans Hreins Njálssonar aðstoðarmanns landlæknis
netfang kjartanh@landlaeknir.is
sími 510-1900.