11. febrúar 2019
11. febrúar 2019
Opinber stefna stjórnavalda gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería
Þann 8. febrúar síðastliðinn undirrituðu Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra yfirlýsingu um sameiginlegt átak til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi.
Þann 8. febrúar síðastliðinn undirrituðu Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra yfirlýsingu um sameiginlegt átak til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi.
Þessi yfirlýsing kemur í framhaldi af tillögum starfshóps til heilbrigðisráðherra á árinu 2017 en þar voru birtar 10 tillögur um aðgerðir til stemma stigu við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Í tillögum starfshópsins var meðal annars lagt til að stjórnvöld myndu marka sér opinbera stefnu um aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmi en í yfirlýsingu ráðherranna kemur fram að tillögur starfshópsins marki opinbera stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki.
Vaxandi útbreiðsla sýklalyfjaónæmis er talin ein helsta heilbrigðisógn sem steðjar að mannkyninu í dag. Á Íslandi er sýklalyfjaónæmi minna en í mörgum nálægum löndum og því mikilvægt að gripið verði til víðtækra aðgerða til að viðhalda þeirri stöðu. Á undanförnum árum hefur þó verið gripið til ýmissa aðgerða hér á landi svo sem til að bæta sýklalyfjaávísanir lækna en ýmislegt er þó óunnið.
Þessi opinbera yfirlýsing ráðherranna er því sérstakt fagnaðarefni og markar tímamót í opinberri baráttu við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis á Íslandi.
Lesa nánar:
Sóttvarnalæknir