Fara beint í efnið

12. september 2018

Nýjar leiðbeiningar um viðbrögð við örverumengun í neysluvatni og leiðbeiningar til almennings um suðu neysluvatns

Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, Matvælastofnun, sóttvarnalæknir og Umhverfisstofnun hafa gefið út leiðbeiningar um viðbrögð við örverumengun í neysluvatni.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, Matvælastofnun, sóttvarnalæknir og Umhverfisstofnun hafa gefið út leiðbeiningar um viðbrögð við örverumengun í neysluvatni. Leiðbeiningarnar byggja á kröfum í reglugerð um neysluvatn nr. 536/2001 og markmiðið með þeim er að tryggja góða samvinnu hlutaðeigandi stjórnvalda og að samræma viðbrögð og vandaða upplýsingagjöf til almennings. Einnig voru gefnar út leiðbeiningar til almennings um suðu neysluvatns.

Vatnsveitur eru matvælafyrirtæki skv. lögum um matvæli nr. 93/1995 og bera ábyrgð á neysluvatni sem þær dreifa og að upplýsa neytendur og heilbrigðiseftirlit, sé það ekki öruggt til neyslu. Heilbrigðisfulltrúar sjá um reglubundnar sýnatökur og túlkun niðurstaðna rannsókna. Ef örverur greinast í sýnum yfir hámarksgildum þarf að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að endurheimta vatnsgæðin og eru úrbæturnar á ábyrgð vatnsveitna ef örverumengunin greinist í dreifikerfi eða vatnsbóli en húseigenda ef orsökin er í lögnum húss.

Þegar ákveðnir flokkar örvera greinast í neysluvatni gefur heilbrigðiseftirlitið, í samráði við heilbrigðisyfirvöld á svæðinu, út ábendingu til neytenda um að sjóða þurfi allt vatn sem drukkið er eða notað til matargerðar. Þessar leiðbeiningar verða hafðar aðgengilegar á vefsíðum Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga, Matvælastofnunar og sóttvarnalæknis til upplýsingar fyrir almenning.

Sjá nánar:

Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga
Matvælastofnun
Sóttvarnalæknir
Umhverfisstofnun