Fara beint í efnið

16. ágúst 2021

Nýjar aðgerðir á landamærum vegna COVID-19

Á miðnætti tók gildi ný reglugerð sem kveður á um að ferðamenn með tengsl við Ísland skuli, þrátt fyrir að framvísa vottorði um bólusetningu gegn COVID-19 eða vottorði um að sýking sé afstaðin, gangast undir annað hvort hraðpróf eða PCR-próf til greiningar á COVID-19 á næstu tveimur dögum frá komu til landsins

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Á miðnætti tók gildi ný reglugerð sem kveður á um að ferðamenn með tengsl við Ísland skuli, þrátt fyrir að framvísa vottorði um bólusetningu gegn COVID-19 eða vottorði um að sýking sé afstaðin, gangast undir annað hvort hraðpróf eða PCR-próf til greiningar á COVID-19 á næstu tveimur dögum frá komu til landsins. Þetta á jafnframt við um börn fædd 2015 og fyrr með tengsl við Ísland, hvort sem þau ferðast einsömul eða með öðrum. Sýnataka þessi er gjaldfrjáls. Ferðamenn með tengsl við Ísland eru m.a. íslenskir ríkisborgarar, íbúar Íslands með dvalar- eða atvinnuleyfi á Íslandi, þ. á m. umsækjendur um slík leyfi og aðstandendur þeirra, umsækjendur um alþjóðlega vernd og einstaklingar sem koma til landsins vegna vinnu eða náms sem mun standa lengur en sjö daga og aðstandendur þeirra.

Allir ferðamenn þurfa að forskrá sig fyrir komu til landsins og í forskráningu tilgreinir ferðamaður hvort hann hafi tengsl við Ísland og fær þá strikamerki fyrir sýnatöku. Hægt er að velja um PCR-próf á Keflavíkurvelli eða hraðpróf hjá heilsugæslunni á Suðurlandsbraut 34 eða ákveðnum sýnatökustöðum á landsbyggðinni.

Heimilt verður að sekta þá einstaklinga sem ekki fara í sýnatöku innan tiltekins tíma. Ekki þarf að sæta sóttkví meðan beðið er niðurstöðu þessarar sýnatöku en ferðamenn eru beðnir að sinna persónulegum sóttvörnum, takmarka umgengni við viðkvæma einstaklinga og vera vakandi fyrir einkennum COVID-19 (hiti, hósti, kvefeinkenni, hálsbólga, slappleiki, þreyta, beinverkir, skyndileg breyting á lyktar- og bragðskyni, uppköst og niðurgangur). Börn fædd 2016 og síðar eru undanþegin forskráningu og sýnatöku.

Áfram verður gerð krafa um að ferðamenn framvísi neikvæðu COVID-19 prófi á landamærum.

Gildistími þessarar breytingar sem og upprunalega reglugerðin er til 1. október.

[English]

Sóttvarnalæknir