Fara beint í efnið

14. nóvember 2018

Ný veggspjöld um umönnun barna

Embætti landlæknis hefur í samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og UNICEF gefið út veggspjöld sem gefa einföld ráð um umönnun ungra barna.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Embætti landlæknis hefur í samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og UNICEF gefið út veggspjöld sem gefa einföld ráð um umönnun ungra barna.  

Fyrstu árin í lífi barns eru veigamikil þegar kemur að heilsu og velferð. Á þessum tíma þroskast heilinn hraðar en nokkurn tímann aftur á ævinni og grunnur er lagður að heilasvæðum sem stýra hegðun, málþroska, tilfinningaþroska, námi og minni til framtíðar.

Þjóðir heims eru í vaxandi mæli að átta sig á mikilvægi þess að beina sjónum að fyrstu æviárum barna og að góð uppvaxtarár sé réttur hvers barns. Með tilkomu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna hefur þessi ábyrgð orðið enn skýrari.

Veggspjöldin sem um ræðir tengjast heimsherferð UNICEF um mikilvægi fyrstu áranna og verða þau send til allra heilsugæslustöðva á landinu. Aðrir geta einnig óskað eftir því að fá send veggspjöld auk þess sem þau eru aðgengileg á vef embættisins til niðurhals.

Fyrr á þessu ári tóku Embætti landlæknis og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins einnig höndum saman við útgáfu fræðslumyndbanda um mikilvægi þroskandi umhverfis og jákvæðra tengsla við umönnunaraðila í upphafi lífs, og þess alvarlega skaða sem getur orðið þegar barn býr við slæmt atlæti, ofbeldi eða vanrækslu. Myndböndin má finna á sameiginlegum vef heilsugæslunnar og embættisins, Heilsuvera heilsuvera.is  

Sigrún Daníelsdóttir, verkefnisstjóri geðræktar
Salbjörg Bjarnadóttir, verkefnisstjóri geðheilbrigðisþjónustu