Fara beint í efnið

2. júlí 2019

Ný rannsókn sýnir mikil áhrif af bólusetningu gegn HPV (human papilloma veiru)

Læknatímaritið „The Lancet“ birti þann 26. júní 2019 niðurstöðu rannsóknar á áhrifum bólusetningar gegn HPV.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Læknatímaritið „The Lancet“ birti þann 26. júní 2019 niðurstöðu rannsóknar á áhrifum bólusetningar gegn HPV. Rannsóknin var samantekt margra rannsókna (meta-analysis) á áhrifum HPV-bólusetninga gegn forstigsbreytingum leghálskrabbameins, HPV-sýkingum í kynfærum og kynfæravörtum. Rannsóknartímabilið spannaði 8 ár frá upphaf bólusetninga og tók til bólusetninga í mörgum löndum. Að rannsókninni stóðu óháðir rannsóknaraðilar margra landa. 

Niðurstaða rannsóknarinnar sýndi að bólusetningin er mjög áhrifarík til að koma í veg fyrir forstigsbreytingar leghálskrabbameins af völdum veira sem eru í bóluefninu og einnig veira sem ekki eru í bóluefninu hjá bæði bólusettum og óbólusettum einstaklingum (hjarðónæmi). Sömuleiðis fækkaði öllum HPV-sýkingum í kynfærum af völdum ofangreindra veira bæði hjá stúlkum og óbólusettum drengjum vegna hjarðónæmis. Þessi áhrif eru sérstaklega áberandi í þjóðfélögum þar sem þátttaka í bólusetningu er góð og margir árgangar hafa verið bólusettir.

Bólusetning með fjórgildu bóluefni (Gardasil) fækkaði einnig marktækt kynfæravörtum bæði hjá bólusettum stúlkum og óbólusettum stúlkum og drengjum.

Á Íslandi hafa stúlkur verið bólusettar við 12 ára aldur frá 2011 með tvígildu bóluefni (Cervarix). Þátttaka hefur hér verið mjög góð eða um 90% sem er meira en í flestum löndum. Rannsóknir á áhrifum bólusetningarinnar á Íslandi hafa hins vegar ekki verið gerðar.

Niðurstöður greinarinnar í „The Lancet“ eru mjög ánægjulegar og benda til að með víðtækri bólusetningu stúlkna megi draga verulega úr líkum á leghálskrabbameini en hér á landi greinast um 18 konur á hverju ári með leghálskrabbamein og hundruðir með alvarlegar forstigsbreytingar leghálskrabbameins.

Sóttvarnalæknir