10. apríl 2020
10. apríl 2020
Njótum augnabliksins – hér og nú
Kórónuveirufaraldurinn hefur sett daglegt líf flestra jarðarbúa í aðrar skorður en við höfum nokkurn tímann upplifað.
Embætti landlæknis hefur tekið saman tíu heilræði sem byggja á niðurstöðum rannsókna á því hvað er mikilvægt að hafa í huga til að hlúa vel að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Heilræði dagsins í dag snýr að því að njóta augnabliksins.
Þegar samkomum fækkar gefst tækifæri til að hægja aðeins á. Nýtum þessar aðstæður til að njóta augnabliksins og dvelja meira í núinu. Tökum eftir fegurðinni í litlu hlutunum í kringum okkur og í náttúrunni með öllum skynfærum. Leyfum þessum tíma að vera endurnærandi og gefandi fyrir okkur.
Kórónuveirufaraldurinn hefur sett daglegt líf flestra jarðarbúa í aðrar skorður en við höfum nokkurn tíman upplifað. Við hittum færra fólk og margt af því sem venjulega fyllir líf okkar er geymt til betri tíma. Við þetta getur skapast ákveðið tómarúm.
En í þessu sem öðru felast einnig tækifæri. Hversu oft höfum við hugsað að við þyftum einmitt að draga úr áreitinu í kringum okkur? Nú er kannski tækifæri til að gera minna og vera meira. Leyfa dögunum að taka á sig hægari mynd. Lesa blöðin, vökva blómin, taka lengri göngutúra og gefa hverri athöfn þann tíma sem hún þarf í stað þess að þeysast úr einu í annað. Taka eftir vorinu sem er að kvikna allt um kring, hlusta á fuglasönginn sem vekur okkur á morgnana, finna ilminn af uppáhaldsdrykknum okkar, horfa upp í litbrigði himinsins, finna hvernig vatnið fellur á líkama okkar í sturtunni, borða hægt og njóta matarins.
Rannsóknir á núvitund hafa sýnt hversu jákvæð áhrif það hefur að leyfa okkur stundum bara að vera án þess að gera nokkuð. Taka eftir því sem er að eiga sér stað hér og nú―hvort sem það er andardráttur okkar, umhverfishljóðin eða hugsanirnar sem flögra um í höfðinu―án þess að dæma innihaldið eða bregðast við. Bara leyfa því að vera sem er.
Núvitundaræfingar er hægt að gera bæði formlega og óformlega. Formlegar æfingar felast í því að taka sér ákveðinn tíma til að gera æfingu eftir ákveðinni forskrift. Hægt er að nálgast slíkar æfingar gegnum margvísleg smáforrit á flestum tungumálum. Á íslensku má t.d. finna smáforritið HappApp án endurgjalds. Óformlegar æfingar felast einfaldlega í því að taka betur eftir líðandi stund í daglegu lífi. Æfa sig í því að taka eftir því sem á sér stað þá stundina, hvað sem það er, án þess að dæma það og án þess að bregðast við því.
Við erum auðvitað ekki öll að upplifa einfaldari tíma. Fyrir þau sem standa nú í framvarðarsveit almannavarna―innan heilbrigðiskerfis, menntakerfis og löggæslu―er álagið nú meira en nokkru sinni. Margir foreldrar finna sömuleiðis fyrir miklu álagi einmitt núna við að sinna bæði börnum og vinnu heima hjá sér. Þegar álagið er mikið er jafnvel enn mikilvægara að gefa sér tíma, þó ekki sé nema fimm mínútur á dag, til þess eingöngu að anda og dvelja í augnablikinu. Að sjá fegurðina í litlu hlutunum og njóta þeirrar gleði og sigra sem hver dagur hefur upp á að bjóða, jafnvel í erfiðum aðstæðum.
Hverjar svo sem aðstæður okkar eru gefst öllum tækifæri á hverju augnabliki til að líta inn á við―eða í kringum okkur―og taka eftir lífinu sem er að eiga sér stað. Smæstu hlutir geta orðið stórbrotnir ef við bara tökum eftir þeim.
Nánari upplýsingar um núvitund og smáforritið HappApp má finna á Heilsuveru
Lýðheilsusvið embættis landlæknis