9. júlí 2020
9. júlí 2020
Niðurstöður mótefnamælinga hjá Íslenskri erfðagreiningu
Niðurstöður mótefnamælinga sem Íslensk erfðagreining (ÍE) gerði gegn SARS-CoV-2 veirunni f.h. sóttvarnalæknis á tímabilinu 3. apríl til 20. júní 2020, eru nú komnar í Heilsuveru.
Niðurstöður mótefnamælinga sem Íslensk erfðagreining (ÍE) gerði gegn SARS-CoV-2 veirunni f.h. sóttvarnalæknis á tímabilinu 3. apríl til 20. júní 2020, eru nú komnar í Heilsuveru. Mælingarnar náðu til rúmlega 30 þúsund manns. Tilvist mótefna er merki um fyrri sýkingu og bendir til að viðkomandi muni ekki sýkjast aftur af veirunni.
Einstaklingum, sem leituðu til heilbrigðisþjónustunnar af öðrum ástæðum en COVID-19, var boðið að gefa blóð til mótefnamælinga. Blóðtökuaðilum var uppálagt að fá samþykki einstaklinga fyrir mælingu mótefna. Ekki var beðið um upplýst eða skriflegt samþykki. Íslensk erfðagreining mældi mótefnin f.h. sóttvarnalæknis undir formerkjum sóttvarnaráðstafana. Þessi blóðsýni voru einungis rannsökuð m.t.t. mótefna gegn COVID-19. Íslensk erfðagreining er ekki með persónuauðkenni á einstaklingum heldur einungis sóttvarnalæknir. Einstaklingar sem mælast með mótefni kunna að fá boð um að taka þátt í framhaldsrannsókn sem verður þá formleg vísindarannsókn.
Það eru ekki allir sem mælast með mótefni sem hafa sýkst af veirunni. Próf hafa ákveðið næmi og eins getur tekið ákveðinn tíma að verða jákvæður. Einhverjir einstaklingar sem voru með staðfestan COVID-19 sjúkdóm hér á landi hafa fengið neikvæða niðurstöðu úr mótefnamælingu sem þýðir að ekki fundust mótefni gegn SARS-CoV-2 í blóðsýninu. Við viljum vekja athygli einstaklinga á því að nýlegar rannsóknir benda til þess að frumubundið ónæmi gegn sjúkdómnum geti verið til staðar án þess að mótefni mælist í blóði. Því er hugsanlegt að einhverjir sem fengu COVID-19, hafi öðlast frumubundið ónæmi án mótefnamyndunar í blóði. Það þýðir hins vegar ekki að viðkomandi einstaklingar séu ekki með vörn gegn veirunni heldur er litið svo á að hafi fólk fengið staðfestingu á smiti sé það með vörn. Ekki er þó vitað hversu lengi ónæmið muni vara og því er mikilvægt að sinna vel hreinlæti og forðast að komast í tæri við sýkinguna að óþörfu.
Sjá nánar um mótefnamælingarnar Í júlíhefti Farsóttafrétta.
Sóttvarnalæknir