20. desember 2018
20. desember 2018
Mun fleiri eru mögulegir líffæragjafar en margur hyggur
„Lifur úr háöldruðu fólki er hægt að nýta til að bjarga öðrum, stundum nýru líka. Í raun og veru er hópur mögulegra líffæragjafa mun stærri en flestir gera sér grein fyrir."
„Lifur úr háöldruðu fólki er hægt að nýta til að bjarga öðrum, stundum nýru líka. Í raun og veru er hópur mögulegra líffæragjafa mun stærri en flestir gera sér grein fyrir."
Þetta sagði Runólfur Pálsson, læknir á Landspítala, á kynningarfundi í Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi 18. desember um verkefnið Við gefum líf. Hann fjallaði þar um breytt lög um líffæragjafir, sem taka gildi um áramót, ásamt Jórlaugu Heimisdóttur verkefnisstjóra hjá landlækni. Fram kom að HIV-sýking og lifrarbólga B eða C væru til dæmis ekki lengur algjörar frábendingar (ástand sem gerir tiltekna meðferð eða aðgerð varasama eða óæskilega). Þannig kæmu upp tilvik þar sem HIV-smitað fólk væri bæði í hlutverkum líffæragjafar og líffæraþega. Lifrarbólgu C væri hægt að uppræta og heldur ekki krabbameinssjúklingar væru útilokaðir sem líffæragjafar.
Líffæragjöfum hefur fjölgað á Íslandi í seinni tíð og kemur margt til: jákvæðara viðhorf almennings og mikil fækkun þeirra sem lýsa sig andvíga líffæragjöf. Þá má nefna fjölgun erlendra ferðamanna á Íslandi, því sorgleg staðreynd er að nokkrir úr þeim hópi hafa orðið líffæragjafar eftir alvarlega heilaáverka í slysum hér.
Samfélagsumræðan skiptir miklu máli. Til að mynda snarfjölgaði þeim sem skráðu sig líffæragjafa í kjölfar þess að foreldrar ungs manns, sem fórst í umferðarslysi, greindu frá því opinberlega að líffæri hans hefðu verið gefin og bætt heilsu eða jafnvel bjargað lífi annarra.
Á fyrri kynningarfundum Embættis landlæknis vegna nýrra lagaákvæða um líffæragjafir eftir áramótin var spurt um rétt þeirra sem væru andvígir líffæragjöfum. Sama gerðist á Selfossi. Jórlaug og Runólfur svöruðu því til að í hverju einasta tilviki væru aðstandendur inntir eftir afstöðu sinni og ef einhver úr hópi nánustu aðstandenda væri mótfallinn líffæragjöf yrði einfaldlega ekkert af slíkri aðgerð:
„Við stuðlum að sjálfsögðu ekki að því að skilja við eftirlifendur í sárum eftir svona aðgerð séu þeir mjög andsnúnir líffæragjöfum. Að sama skapi getur fólk úr fjölskyldum hugsanlegs líffæragjafa staðið eftir afar ósátt með að fallið sé frá líffæragjöfum ef það styður slíkt af heilum hug. Þetta getur því verið býsna snúið mál," svaraði Runólfur.
Hann orðaði það svo að lagabreytingin skyldaði engan til að gefa líffæri en væri miklu frekar ígildi „samfélagssáttmála um tiltekin viðhorf".
Þekkt er að hjón geta verið á öndverðum meiði um hvort börn þeirra verði líffæragjafar ef þau standa sem foreldrar frammi fyrir slíkum möguleika. Spurningar þar að lútandi hafa borist og svörin eru skýr: Líffæragjafir koma ekki til álita ef einhver eða einhverjir í hópi nánustu aðstandenda eru því andvígir. Þeirri vinnureglu er undantekningarlaust framfylgt hérlendis og í grannlöndum okkar sömuleiðis, að því best er vitað.
Merkinu sem Þórhildur Jónsdóttir, grafískur og myndlistarmaður, hannaði fyrir Við gefum líf-verkefnið var að sjálfsögðu brugðið upp á skjá á Selfossfundinum. Fundarmaður þar kom með þá ábendingu að rétt væri að prenta út veggblöð með merkinu og hengja upp á heilsugæslustöðvum og víðar til að minna á lagabreytinguna um áramótin, vekja áhuga og kveikja umræður um Við gefum líf-verkefnið og líffæragjafir yfirleitt til framtíðar.
Næsta víst er að þessi góða hugmynd verði að veruleika og er enn eitt dæmið um ábendingar gesta á kynningarfundunum sem fallnar eru til að gera þarft og gott verkefni enn betra.