Fara beint í efnið

16. júlí 2019

Mislingar greinast í Reykjavík

Fullorðinn einstaklingur búsettur á höfuðborgarsvæðinu, greindist með mislinga fyrir nokkrum dögum. Hann hafði verið á ferðalagi í Úkraínu í júnímánuði og hefur ekki skjalfesta bólusetningu gegn mislingum. Sjúklingnum heilsast vel eftir atvikum og ekki er vitað um fleiri smit á þessari stundu.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Fullorðinn einstaklingur búsettur á höfuðborgarsvæðinu, greindist með mislinga fyrir nokkrum dögum. Hann hafði verið á ferðalagi í Úkraínu í júnímánuði og hefur ekki skjalfesta bólusetningu gegn mislingum. Sjúklingnum heilsast vel eftir atvikum og ekki er vitað um fleiri smit á þessari stundu. Mislingafaraldur hefur verið í gangi í Úkraínu á undanförnum árum og fyrstu tvo mánuði ársins 2019 greindust þar rúmlega 25.000 einstaklingar með mislinga.

Í tengslum við þetta tilfelli er unnið skv. áætlunum sem notaðar voru í mislingafaraldrinum hér á landi í febrúar/mars sl. Haft hefur verið samband við þá einstaklinga sem kunna að hafa smitast af þessum einstaklingi og viðhafðar viðeigandi ráðstafanir eftir atvikum sem geta falist í sóttkví, bólusetningu eða blóðprófum. Einnig hefur heilbrigðisþjónustan verið upplýst og aðilar beðnir um að vera á varðbergi gagnvart hugsanlegum mislingatilfellum.

Ekki er búist við að faraldur sé í uppsiglingu þó stöku mislingatilfelli geti sést til viðbótar. Þátttaka í mislingabólusetningu er hér ágæt sem á að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu. Um 95% einstaklinga á aldrinum tveggja til 18 ára hafa verið bólusettir gegn mislingum og rúmlega 50% einstaklinga á aldrinum eins til tveggja ára. Þess ber að geta að mælt er með fyrstu bólusetningu við 18 mánaða aldur. Þátttaka í bólusetningu einstaklinga eldri en 18 ára er ekki þekkt því miðlægar upplýsingar í þessum aldurshópi liggja ekki fyrir.

Almenn bólusetning gegn mislingum hófst hér á landi 1976 og talið er að flestir fæddir fyrir 1970 hafi fengið mislinga og þurfi því ekki bólusetningu. Sóttvarnalæknir hvetur alla sem hyggja á ferðalag til landa þar sem mislingar geisa að huga vel að bólusetningum áður en ferð er hafin. Upplýsingar um útbreiðslu mislinga má finna á vef alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).

Sóttvarnalæknir