18. júní 2021
18. júní 2021
Lýðheilsuvísar 2021 kynntir
Lýðheilsuvísar eftir heilbrigðisumdæmum voru kynntir í vikunni. Er þetta í sjötta sinn sem lýðheilsuvísar embættis landlæknis eru gefnir út. Er þetta í sjötta sinn sem lýðheilsuvísar embættis landlæknis eru gefnir út. Allar upplýsingar um lýðheilsuvísa 2021 má finna á vef landlæknis.
Lýðheilsuvísar eftir heilbrigðisumdæmum voru kynntir í vikunni. Er þetta í sjötta sinn sem lýðheilsuvísar embættis landlæknis eru gefnir út.
Allar upplýsingar um lýðheilsuvísa 2021 má finna á vef landlæknis.
Upptökur frá viðburðinum má nálgast hér.
Lýðheilsuvísar eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar. Þeir eru settir fram til þess að veita yfirsýn og auðvelda heilbrigðisþjónustu og sveitarfélögum að greina stöðuna í eigin umdæmi þannig að vinna megi með markvissum hætti að því að bæta heilsu og líðan íbúanna.
Alma D. Möller, landlæknir ávarpaði fundinn. Í erindi hennar kom m.a. fram að heilsa er ekki einungis málefni heilbrigðisþjónustunnar heldur samfélagsins alls. Lifnaðarhættir, menntun og fjárhagslegt öryggi skipta þannig ekki síður máli þegar heilsufar er annars vegar. Þá nefndi Alma heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna en gott samræmi er milli þeirra og helstu áhrifaþátta heilbrigðis og vellíðanar. Ísland hefur einmitt skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu þeirra.
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsusviðs hjá embætti landlæknis greindi frá lýðheilsuvísum tengdum lifnaðarháttum og líðan. Í erindi Dóru kom fram að frá byrjun vöktunar á hamingju fullorðinna er í fyrsta sinn marktæk lækkun á hlutfalli þeirra sem telja sig mjög hamingjusama á milli ára. Hlutfallið fer niður á við í öllum umdæmum nema á Vestfjörðum og Austurlandi. Marktækur munur mælist ekki á streitu fullorðinna milli 2019 og 2020 fyrir landið allt og í flestum umdæmum er hlutfall þeirra sem finna oft eða mjög oft fyrir mikilli streitu lægra árið 2020 en það var 2019. Sveiflur hafa verið í mælingum embættisins á einmanaleika á milli mánaða. Lægra hlutfall fullorðinna upplifði einmanaleika í fyrstu bylgju COVID-19 hér á landi en jókst svo sumarið 2020 eins og síðustu ár. Þegar árið í heild er skoðað þá hefur orðið aukning á hlutfalli þeirra sem segjast oft eða mjög oft finna fyrir einmanaleika.
Mælingar á svefntíma hafa eins og mælingar á einmanaleika sveiflast nokkuð milli mánaða. Almennt hefur verið fækkun í hópi fullorðinna sem sofa of lítið en því miður hefur þróunin ekki verið sú sama á meðal barna. Árið 2019 sváfu 26,6% fullorðinna of lítið samanborið við 24,7% árið 2020. Hjá börnunum var þetta hlutfall 43,1% árið 2019 og 43,6% árið 2020. Ekki mikil aukning en samt neikvæð þróun. Það vekur athygli að flest börn á Austurlandi ná nægum svefni en Austurland er nær því að vera með rétt stillta klukku miðað við staðsetningu á jörðinni. Þar er skólabyrjun að auki seinna en gengur og gerist a.m.k. í einum stórum skóla. Dóra hvatti skólastjórnendur á landinu til að skoða það með opnum hug að seinka skólabyrjun, sérstaklega á unglingastigi. Hæst hlutfall ungmenna í 8.-10. bekk, sem skora hátt á vellíðan er á Austurlandi en lækkun á sér þó stað í öllum heilbrigðisumdæmum. Þá telur tæplega helmingur framhaldsskólanema andlega heilsu sína góða eða mjög góða en hæst hlutfall er á Vestfjörðum og Suðurnesjum.
Fullorðnum sem stunda litla sem enga eða miðlungserfiða hreyfingu hefur fjölgað hlutfallslega frá árinu 2019. Rúmlega helmingur framhaldsskólanema segist stunda erfiða hreyfingu þannig að þau mæðast og svitna þrisvar sinnum í viku eða oftar og um 16% nemenda í 10. bekk grunnskóla hreyfa sig í samræmi við ráðleggingar um hreyfingu, þ.e. 60 mínútur eða meira á hverjum degi.
Aðeins tæp 10% fullorðinna sögðust borða ávexti og grænmeti fimm sinnum á dag árið 2020 en þetta hlutfall var 11% árið 2019. Grænmeti og ávextir eru mikilvægur hluti af hollu mataræði. Neysla þess minnkar líkur á hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki af tegund 2 og ýmsum tegundum krabbameina, auk þess að stuðla að heilsusamlegri líkamsþyngd. Ráðlagt er að borða 5 skammta af grænmeti og ávöxtum á dag eða minnst 500 grömm samtals. Þá er aukning í gosdrykkjaneyslu fullorðinna á milli ára og um 20% framhaldsskólanema drekka gosdrykki fjórum sinnum í viku eða oftar. Hér á landi eru gosdrykkir undanþegnir hefðbundnum virðisaukaskatti og því má segja að um skattaafslátt sé að ræða, sem eykur aðgengi að vörunni, sem fer þvert gegn öllum lýðheilsuráðleggingum. Rannsóknir sýna sterka fylgni milli gosdrykkjaneyslu og annarra óhollustu og því er frekar mælt með auka álögum á gosdrykki en ekki afslátt af þeim til að draga úr neyslunni.
Ekki hafa orðið marktækar breytingar á ölvunardrykkju meðal nemenda í 10. bekk síðustu ár fyrir landið í heild. Hlutfall fullorðinna, sem falla undir þá skilgreiningu að vera með áhættusamt neyslumynstur áfengis, hefur minnkað síðustu ár og er marktækur munur frá 2018 þegar hlutfallið var 25,6% og er nú komið niður í 22,1% yfir landið í heild. Þá lækkar enn hlutfall fullorðinna sem reykja daglega og er nú 7,3% fyrir landið í heild.
Sigríður Haraldsd. Elínardóttir, sviðsstjóri heilbrigðisupplýsinga hjá embætti landlæknis fjallaði um lýðheilsuvísa sem tengjast samfélaginu og heilsu og sjúkdómum. Sigríður vakti athygli á því að hlutfallslega hefur hægt á íbúafjölgun á landinu öllu, einkum í þeim heilbrigðisumdæmum þar sem íbúafjölgun var mest síðastliðin ár. Ef á heildina er litið áttu marktækt færri erfitt með að ná endum saman árið 2020 heldur en 2019. Þessi munur var þó eingöngu marktækur á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi.
Hlutfall fullorðinna Íslendinga sem metur heilsu sína sæmilega eða lélega hefur vaxið á undanförnum árum. Hlutfallið var marktækt hærra 2020 en 2019 í þremur heilbrigðisumdæmum, á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og á Norðurlandi. Hlutfall fullorðinna sem metur andlega heilsu sína sæmilega eða lélega hefur einnig vaxið undanfarin ár. Hlutfallið var marktækt hærra 2020 en 2019 í þremur heilbrigðisumdæmum, á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og á Suðurlandi.
Á landinu í heild og í öllum heilbrigðisumdæmum hefur marktækt dregið úr ávísun sýklalyfja til handa börnum undir 5 ára aldri á hverju ári síðan 2016. Mest dró úr þessum ávísunum milli áranna 2019 og 2020, sem tengist án efa heimsfaraldri COVID-19, samkomutakmörkunum og aukinni áherslu á smitvarnir.
Lítil breyting varð á þátttöku í skimunum fyrir leghálskrabbameini milli áranna 2019 og 2020 þrátt fyrir takmarkanir í heilbrigðisþjónustu vegna COVID-19 faraldursins. Þátttaka í skimun fyrir brjóstakrabbameini jókst lítillega milli áranna 2019 og 2020 og marktæka aukningu mátti sjá í þátttöku á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi.
Komur á heilsugæslustöðvar voru marktækt færri árið 2020 en 2019 í öllum heilbrigðisumdæmum en árin á undan hafði þeim alla jafna fjölgað marktækt ár frá ári. Þær hömlur sem setja þurfti á samskipti fólks til þess að hefta útbreiðslu COVID-19 höfðu þannig mikil áhrif á með hvaða hætti heilbrigðisþjónusta var veitt. Á sama tíma og komum á heilsugæslustöðvar fækkaði, fjölgaði rafrænum samskiptum og símtölum við heilsugæslu hins vegar gríðarlega á milli ára.
Að lokum fjallaði Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða um hvernig hægt er að nýta lýðheilsuvísa í heimabyggð. Sagði Gylfi mikla framþróun hafa orðið í söfnum og notkun ýmissa gagna undanfarin ár en með tímanum verður til heilsteypt mynd af stöðu mála og virði gagnanna eykst svo um munar. Nefndi hann lýðheilsuvísa embættis landlæknis sem gott dæmi enda stuðla þeir að betri ákvarðanatöku í heimabyggð, forgangsröðun verkefna og eftirfylgni. Þá óskaði Gylfi eftir nokkurs konar rafrænni gagnagátt þar sem allir lýðheilsuvísar væru birtir með aðgengilegum hætti.
Fundinum var stjórnað af Gígju Gunnarsdóttir, verkefnisstjóra heilsueflandi samfélags hjá embætti landlæknis.