Fara beint í efnið

20. ágúst 2019

Listeríusmit á Spáni

Listeríumengaður kjötbúðingur frá vörumerkinu „La Mechá“ er talinn hafa valdið veikindum yfir 100 manns á Spáni, aðallega í Andalúsíu

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Listeríumengaður kjötbúðingur frá vörumerkinu „La Mechá“ er talinn hafa valdið veikindum yfir 100 manns á Spáni, aðallega í Andalúsíu en vitað er um tilfelli víðar, frá í maí sl. Það eru einkum ung börn, aldraðir, þungaðar konur og fólk með skert ónæmiskerfi sem veikjast, ein öldruð kona hefur látist vegna þessarar sýkingar. Kjötbúðingurinn hefur verið seldur víða á meginlandi Spánar og einnig á Tenerife/Kanaríeyjum.

Hætt er við listeríusmiti frá ýmsum matvælum sem seld eru tilbúin til neyslu, á borð við ógerilsneydda osta, reyktan lax og álegg. Einnig kemur fyrir að smit hafi verið rakið til frosins, létteldaðs grænmetis, sem neytt er án hitunar, s.s. í salati.

Listería er kuldaþolin umhverfisbaktería sem getur auðveldlega borist inn í vinnsluumhverfi matvælafyrirtækja. Fari eitthvað úrskeiðis í framleiðslunni, s.s. vegna eftirmengunar, er hætta á að listería nái að fjölga sér á ný eftir uppþýðingu. Mjög langur tími getur liðið frá neyslu listeríumengaðra matvæla þar til einkenni koma fram, oft um þrjár vikur en getur jafnvel liðið lengri tími.

Íslendingar sem dvelja á Spáni eða Kanaríeyjum um þessar mundir og kunna að eiga kjötbúðing frá „La Mechá“ í kæliskáp eða frysti eru hvattir til að farga honum.

Sjá nánar um listeríu á vef embættis landlæknis.