28. ágúst 2020
28. ágúst 2020
Lífið í landslaginu – málþing um skipulag og hönnun í landslagi
Landslag var í brennidepli á málþinginu Lífið í landslaginu sem Skipulagsstofnun hélt í samstarfi við Félag íslenskra landslagsarkitekta í Norræna húsinu miðvikudaginn 26. ágúst. Málþingið var lokaviðburður morgunfundaraðar Skipulagsstofnunar um landsskipulagsstefnu, en í nýjum viðauka við landsskipulagsstefnu verður fjallað sérstaklega um skipulagsgerð með tilliti til landslags og sett fram viðmið fyrir greiningu á óbyggðum víðernum og skipulag vindorkunýtingar.
Vegna samkomutakmarkana var skráning á viðburðinn takmörkuð, en fjölmargir fylgdust með streymi frá honum á Facebook-síðu Skipulagsstofnunar.
Greining landslagsgerða á Íslandi
Í upphafserindi málþingsins fjallaði Karl Benediktsson, prófessor í landfræði við Háskóla Íslands, á líflegan hátt um landslagshugtakið og fór yfir ýmis álitamál sem fylgja því að skilgreina, flokka og meta landslag. Í kjölfarið kynnti Ólafur Árnason, forstöðumaður nýsköpunar og þróunar hjá Skipulagsstofnun, viðamikið verkefni sem tekur til greiningar og kortlagningar landslagsgerða á Íslandi. Verkefnið var unnið fyrir Skipulagsstofnun af EFLU verkfræðistofu í samstarfi við ráðgjafarfyrirtækið LUC (Land Use Consultants) í Bretlandi, en þar í landi er löng reynsla af greiningu landslagsgerða (e. landscape character assessment, LCA). Paul Macrae og Sam Oxley, landslagsarkitektar hjá LUC og samstarfsaðilar EFLU í verkefninu, fluttu erindi frá Edinborg og röktu ýmis dæmi um hvernig greiningu landslagsgerða er beitt við skipulagsgerð og aðrar ákvarðanir um landnotkun í Bretlandi.
Víðerni og vindorka
Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, fjallaði því næst um þann hluta landsskipulagsvinnunnar sem snýr að óbyggðum víðernum og skipulagi vindorkunýtingar með tilliti til landslags. Hún veitti innsýn í tillögur sem nú eru í vinnslu og setti þær í samhengi við stefnu og verkefni stjórnvalda. Hún vék einnig að evrópska landslagssamningnum sem íslensk stjórnvöld fullgiltu fyrr á þessu ári, en hann leggur m.a. þær skyldur á herðar aðildarríkjum að vinna að skipulags- og áætlanagerð um landslag.
Skipulag og hönnun í landslagi
Í síðustu tveimur erindum málþingsins var vikið að hönnun í landslagi og því hlutverki sem hún gegnir við að skapa umgjörð um mannlíf og samfélag. Dagný Bjarnadóttir landslagsarkitekt fjallaði um áhrif skipulags og hönnunar á lífsvenjur, svo sem með því að gera ráð fyrir ræktun matvæla innan þéttbýlis og hönnun borgargatna. Að lokum flutti Anna María Bogadóttir arkitekt erindið Almenningsvatn og afskekkt þéttbýli, þar sem hún fjallaði um hönnun og þróun almenningsrýma sem tengjast vatni, þ.á m. baðstaða, og áhrif vatns á þróun byggðar og félagslega þætti.
Glærur frá málþinginu má nálgast hér.