Fara beint í efnið

23. ágúst 2021

Leiðbeiningar sóttvarnalæknis um sóttkví og notkun hraðgreiningaprófa fyrir COVID-19

Sóttvarnalæknir mun birta á næstu dögum nýjar leiðbeiningar um notkun hraðgreiningaprófa fyrir COVID-19 og sóttkví barna og fullorðinna.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Sóttvarnalæknir mun birta á næstu dögum nýjar leiðbeiningar um notkun hraðgreiningaprófa fyrir COVID-19 og sóttkví barna og fullorðinna.

Sóttkví

Sóttkví er hugtak sem notað er þegar einkennalaus einstaklingur, útsettur fyrir COVID-19 er lokaður af samkvæmt ákveðnum reglum, sjá leiðbeiningar um sóttkví. til að hindra að hann smiti aðra ef hann skyldi hafa smitast. Samkvæmt okkar reynslu hér á Íslandi og reynslu annarra þjóða er smitrakning og beiting sóttkvíar á útsetta og einangrun á smitaða, áhrifaríkasta leiðin til að koma í veg fyrir útbreiðslu COVID-19. Allar Norðurlandaþjóðir beita þessari nálgun en útfærsla sóttkvíar er hins vegar nokkuð mismunandi milli landa. Frá 1. júlí 2021 hafa um 3.500 einstaklingar greinst með COVID-19 hér á landi, annaðhvort innanlands eða á landamærunum. Um 2.200 þeirra voru full bólusettir en 1.300 óbólusettir. Um 700 þeirra (20%) sem greindust voru full bólusettir einstaklingar sem voru í sóttkví við greiningu sem sýnir mikilvægi þess að setja bólusetta einstaklinga í sóttkví sem eru útsettir fyrir smiti, sérstaklega þegar smitstuðull veiru, eins og Delta-afbrigðisins er hár.

Í nýjum leiðbeiningum sóttvarnalæknis um skóla og fyrirtækja og í reglugerð sem tekur gildi 24. ágúst 2021 er kveðið á um að einungis þeir sem að mati rakningateymis sóttvarnalæknis og almannavarna hafa verið mikið útsettir fyrir smiti, þurfi áfram að fara í sóttkví í 7 daga sem lýkur með með PCR prófi á sjöunda degi. Þeir sem eru hins vegar minna útsettir þurfa ekki lengur að fara í sóttkví, geta mætt í skóla eða vinnu en þurfa að fara í hraðgreiningarpróf á fyrsta og fjórða degi. Þeim verður hins vegar gert að gæta vel að sínum sóttvörnum og umgangast ekki viðkvæma einstaklinga fyrstu sjö dagana eftir mögulega útsetningu (smitgát). Með þessu verður hægt að fækka til muna þeim sem þurfa að vera í sóttkví á hverjum tíma.

Ný reglugerð um skyldur heimilismanna á heimilum þar sem einstaklingur dvelur í sóttkví tekur gildi þann 24. ágúst nk. Samkvæmt gildandi reglugerð þá þurfa þeir heimilismenn, sem ekki eru fullbólusettir eða ekki greinst með COVID-19, að dvelja í sóttkví ef einhver á heimilinu dvelur í sóttkví. Með nýrri reglugerð þá þurfa heimilismenn hins vegar ekki lengur að dvelja í sóttkví og geta stundað vinnu eða skóla en þeir verða hins vegar beðnir um að sýna smitgát. Ef smit greinist hins vegar á heimilinu þá þurfa allir heimilismenn að fara í sóttkví, nema þeir sem hafa fengið staðfest COVID-19 smit. Þessar nýju leiðbeiningar sóttvarnalæknis og reglugerð um sóttkví munu gilda jafnt um bólusetta og óbólusetta einstaklinga.

Notkun hraðgreiningaprófa

Í nýjum leiðbeiningum um notkun hraðgreiningarprófa fyrir COVID-19 kemur fram að hraðgreiningapróf er misjöfn að gæðum og öryggi þeirra mismunandi. Þau próf sem hlotið hafa hér markaðsleyfi uppfylla hins vegar kröfur landlæknis um bæði gæði og öryggi og geta því gagnast til að greina einkennalausa smitaða einstaklinga og undir vissum kringumstæðum einstaklinga með einkenni um COVID-19. Sjá hér fagleg fyrirmæli landlæknis um hraðgreiningapróf. Rétt er þó að árétta að áreiðanlegustu prófin til að greina COVID-19 eru PCR próf en aðgengi að þeim er gott hér á landi.

Ef fyrirtæki og skólar hafa hug á að nota hraðgreiningapróf í sinni starfsemi er mikilvægt að þau séu notuð samkvæmt leiðbeiningum sóttvarnalæknis, aðilar fái fagaðila til að leiðbeina hvernig taka á sýnin og að jákvæðar niðurstöður verði ætíð staðfestar með PCR prófi. Nokkrar rannsóknarstofur hafa fengið leyfi heilbrigðisráðuneytisins til að nota hraðpróf.

Á þessar stundu hefur ekki verið ákveðið hvort kostnaður vegna hraðprófa muni lúta opinberri greiðsluhlutdeild en ákvörðun um slíkt er hjá heilbrigðisráðuneytinu.

Sjálfspróf fyrir COVID-19

Undanfarið hefur talsvert verið rætt um notkun sjálfsprófa til að greina COVID-19. Sjálfspróf eru hraðpróf sem gerð eru og niðurstaða túlkuð af einstaklingum sjálfum. Þessi próf eru yfirleitt CE merkt sem þýðir að framleiðslu þeirra hefur verið hagað í samræmi við ákveðna gæðastaðla en CE merkingin segir ekkert um gæði þeirra og öryggi. Öryggi og gæði prófanna eru hins vegar yfirleitt minni en þeirra hraðprófa sem hér eru á markaði. Sala prófanna lýtur ekki ákvæðum sóttvarnalaga en hins vegar þarf notkunin að vera í samræmi við sóttvarnalög. Það sem helst veldur áhyggjum við notkun sjálfprófa er hversu ábótavant næmi þeirra er. Þetta þýðir að verulegar líkur geta verið á að einstaklingar sé smitaðir af COVID-19 þó að niðurstaða prófsins sé neikvæð.

Sóttvarnalæknir mælir þannig ekki með notkun sjálfprófa að svo stöddu, sérstaklega í ljósi þess að aðgengi að öðrum hraðgreiningaprófum og PCR prófum er gott hér á landi.

Sóttvarnalæknir