Fara beint í efnið

21. maí 2021

Kynningar- og samráðsfundur um Fyrstu 1000 daga barnsins á Norðurlöndunum

Embætti landlæknis stóð þann 18. maí sl. fyrir rafrænum kynningar- og samráðsfundi um verkefnið Fyrstu 1000 dagar barnsins á Norðurlöndunum. Þetta er norrænt samstarfsverkefni sem embættið leiðir fyrir Íslands hönd og var sett á fót árið 2019 sem eitt af formennskuverkefnum Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Embætti landlæknis stóð þann 18. maí sl. fyrir rafrænum kynningar- og samráðsfundi um verkefnið Fyrstu 1000 dagar barnsins á Norðurlöndunum. Þetta er norrænt samstarfsverkefni sem embættið leiðir fyrir Íslands hönd og var sett á fót árið 2019 sem eitt af formennskuverkefnum Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.

Verkefnið stendur til þriggja ára og beinist að því að skoða hvernig Norðurlöndin eru í stakk búin til að taka við börnum í heiminn og veita þeim heilbrigt upphaf í lífinu. Það beinist að tímabilinu frá meðgöngu til fyrstu tveggja æviáranna og er einkum horft til þess hvernig unnið er að því að:

  • Efla jákvæða geðheilsu og vellíðan verðandi foreldra á meðgöngu

  • Efla heilbrigt samband foreldra og barna í ung- og smábarnavernd

  • Finna og bregðast snemma við áhættuþáttum í lífum ungra barna og fjölskyldna þeirra

  • Hlúa að velferð og vellíðan yngstu barnanna í leikskólum og dagvistun

Fyrsti hluti verkefnisins snéri að því að kortleggja stöðuna innan hvers lands hvað ofangreind atriði varðar og bera saman á milli landa. Þær niðurstöður voru hafa verið birtar í ítarlegri skýrslu, The First 1000 Days in the Nordic Countries: A Situation Analysis, sem finna má hér.

Annar hlutu verkefnisins beindist að því að meta hversu vel þau mælitæki og úrræði, sem nýtt eru á Norðurlöndunum til að efla geðheilsu og velferð ungra barna og foreldra þeirra við upphaf ævinnar, eru studd rannsóknum. Niðurstöður þeirrar úttektar eru væntanlegar í skýrslu á næstunni en frumniðurstöður voru kynntar á samráðsfundinum.

Þriðji og síðasti hluti verkefnisins felst í því að taka saman niðurstöður verkefnisins og setja fram stefnumótunartillögur um hvernig hægt er að styðja betur við velferð og vellíðan barna og foreldra á fyrstu æviárunum. Í tengslum við þá vinnu var haldin innlend vinnustofa í febrúar sl. þar sem sérfræðingar og hagsmunaaðilar á sviðinu unnu nánar með niðurstöður stöðugreiningarinnar og lögðu fram aðgerðir til umbóta. Þær tillögur voru bornar undir þátttakendur samráðsfundarins og kallað eftir umræðum, spurningum og ábendingum sem nýta mætti við áframhaldandi vinnu með niðurstöður verkefnisins.

Hér má nálgast upptöku af fundinum.

Nánari upplýsingar veita:

Sigrún Daníelsdóttir, verkefnisstjóri geðræktar, netfang: sigrun@landlaeknir.is
Jenný Ingudóttir, verkefnisstjóri ofbeldisvarna og heilsueflandi leikskóla, netfang: jenny@landlaeknir.is