Fara beint í efnið

6. júní 2018

Kynning á lýðheilsuvísum fyrir árið 2018

Lýðheilsuvísar 2018, eftir heilbrigðisumdæmum á Íslandi voru kynntir á Fljótsdalshéraði miðvikudaginn 6. júní. Lýðheilsuvísar, sem nú koma út í þriðja sinn, eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Lýðheilsuvísar 2018, eftir heilbrigðisumdæmum á Íslandi voru kynntir á Fljótsdalshéraði miðvikudaginn 6. júní.

Hér má nálgast upptökur frá viðburðinum.

Lýðheilsuvísar, sem nú koma út í þriðja sinn, eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar. Þeir eru settir fram til að veita yfirsýn og auðvelda sveitarfélögum og heilbrigðisþjónustu að greina stöðu heilbrigðisumdæmanna.

Við val á lýðheilsuvísum er sjónum m.a. beint að þeim áhrifaþáttum heilsu og líðanar sem fela í sér tækifæri til heilsueflingar og forvarna. Allar upplýsingar um Lýðheilsuvísa 2018 má finna hér á vef embættisins. 

Lifnaðarhættir, heilsa og líðan þjóðarinnar
Á fundinum sagði Alma D. Möller, landlæknir frá ástæðum þess að embætti landlæknis tekur saman lýðheilsuvísa, þá sagði Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri áhrifaþátta heilbrigðis hjá Embætti landlæknis frá lýðheilsuvísum sem tengjast lifnaðarháttum.

Í erindi Dóru Guðrúnar kom fram að hamingja Íslendinga er svipuð í ár og hún var í fyrra en um 61% landsmanna telja sig mjög hamingjusama. Einnig kom fram að talsverður munur er á gosdrykkjaneyslu og virkum ferðamáta eftir heilbrigðisumdæmum. Um 10% ungmenna í 8.-10. bekk er oft einmana og líður illa í skóla og um 60% ungmenna og 70% fullorðinna ná nægum svefni. Einnig kom fram að yfir 20% nemenda í 10. bekk hafa reykt rafsígarettur s.l. mánuð.

Næst í pontu var Sigríður Haraldsdóttir, sviðsstjóri heilbrigðisupplýsinga hjá Embætti landlæknis. Hún fjallaði um lýðheilsuvísa sem tengjast heilsu og sjúkdómum. Þar kemur m.a. í ljós að dregið hefur úr sýklalyfjaávísunum til ungra barna á landsvísu og í nær öllum heilbrigðisumdæmum.

Sigríður greindi einnig frá því að tíðni liðskiptaaðgerða á mjöðm hefur farið heldur vaxandi sem sýnir jákvæð áhrif átaks stjórnvalda til þess að draga úr bið eftir þessum aðgerðum. Þá eykst notkun þunglyndislyfja á landinu í heild milli ára en þó ekki jafn mikið og undanfarin ár.

Heilsueflandi Austurland í vexti
Eva Jónudóttir, forvarnarfulltrúi á Seyðisfirði sagði frá starfi heilsueflandi samfélaga á Seyðisfirði, Fljótsdalshéraði og Fjarðabyggð. Á þessu ári sem sveitarfélögin hafa unnið eftir nálgun heilsueflandi samfélags hefur mikið áunnist og ánægjulegt er hversu góð samvinna hefur verið milli sveitarfélaganna. Pétur Heimisson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands sagði frá hvernig þau nýta lýðheilsuvísa í þeirra starfi og Sigurbjörg Hvönn Þrastardóttir, aðstoðarskólastjóri Egilsstaðaskóla sagði frá heilsueflingarstarfi Egilsstaðaskóla sem hefur verið í forystuskóli fyrir heilsueflandi grunnskóla.

Góð mæting var á fundinn sem stjórnað var af Björgu Björnsdóttur, bæjarfulltrúa á Fljótsdalshéraði og Björn Ingimarsson bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs ávarpaði fundinn

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri
Sigríður Haraldsdóttir, sviðsstjóri