Fara beint í efnið

6. júní 2019

Kynning á lýðheilsuvísum eftir heilbrigðisumdæmum

Í dag voru nýir lýðheilsuvísar eftir heilbrigðisumdæmum kynntir í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ. Er þetta í fjórða sinn sem lýðheilsuvísar Embættis landlæknis eru gefnir út.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Í dag voru nýir lýðheilsuvísar eftir heilbrigðisumdæmum kynntir í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ. Er þetta í fjórða sinn sem lýðheilsuvísar Embættis landlæknis eru gefnir út.

Upptökur frá viðburðinum má nálgast hér.

Lýðheilsuvísar eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar. Þeir eru settir fram til þess að veita yfirsýn og auðvelda heilbrigðisþjónustu og sveitarfélögum að greina stöðuna í eigin umdæmi þannig að vinna megi með markvissum hætti að því að bæta heilsu og líðan íbúanna.

Við val á lýðheilsuvísum er sjónum einkum beint að þeim áhrifaþáttum heilsu og líðanar sem fela í sér tækifæri til heilsueflingar og forvarna. Þá er leitast við að velja þá þætti í sjúkdómabyrði sem mikilvægt er að heilbrigðisþjónusta hvers umdæmis geri sér grein fyrir og bregðist við.

Birgir Jakobsson, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra ávarpaði fundinn.

Landlæknir, Alma D. Möller, greindi frá því hvers vegna embættið tekur saman og birtir lýðheilsuvísa árlega.

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri áhrifaþátta heilbrigðis hjá Embætti landlæknis greindi frá lýðheilsuvísum tengdum lifnaðarháttum. Í erindi Dóru kom fram að Íslendingar eru heilt yfir hamingjusamir og um 60% landsmanna telja sig mjög hamingjusama. Jákvæð þróun hefur orðið á síðustu árum á hlutfalli þeirra sem velja virkan ferðamáta í skóla eða vinnu, en um 60% nemenda í 8.-10. bekk hjólar eða gengur í skólann og rúmlega 20% fullorðinna hjólar eða gengur þrisvar sinnum í viku eða oftar.

Einnig kom fram að hlutfall framhaldsskólanema sem hafa orðið ölvaðir einu sinni eða oftar síðustu 30 daga hefur lækkað á landsvísu en þar er þó nokkur breytileiki milli heilbrigðisumdæma. Hlutfall þeirra sem reykja daglega heldur áfram að dragast saman og er nú 8,6%.

Helstu áskoranir varðandi lifnaðarhætti landsmanna er of stuttur svefn, orkudrykkjanotkun, streita og andleg líðan ungmenna. Tæplega 30% fullorðinna og rúmlega 70% framhaldsskólanema ná ekki nægum svefni. Á sama tíma hefur gríðarleg aukning orðið á daglegri neyslu orkudrykkja meðal framhaldsskólanema en þar fer hlutfallið á landsvísu úr 21,7% árið 2016 í 54,6% árið 2018. Auk þess hefur gosdrykkjaneysla fullorðinna aukist á landsvísu. Dóra greindi frá því að rannsóknir sýni fram á að upplifun nemenda á því hvernig kennurum líki við þá hafi áhrif á líðan og námsárangur í skóla. Það er því umhugsunarvert að einungis 55,7% nemenda í 8.-10. bekk upplifi það að kennurunum líki vel við þá. Rannsóknir hafa einnig sýnt að samvera unglinga og foreldra sé verndandi þáttur fyrir áhættuhegðun og því áhyggjuefni að sjá hlutfall þeirra nemenda í 9.-10. bekk sem verja tíma með foreldrum sínum utan skólatíma á virkum dögum lækka.

Sigríður Haraldsdóttir, sviðsstjóri heilbrigðisupplýsinga hjá Embætti landlæknis fjallaði um lýðheilsuvísa sem tengjast heilsu og sjúkdómum. Sigríður vakti athygli á því að tíðni sýklalyfjaávísana til barna undir 5 ára hefur lækkað á landinu í heild. Mest hefur tíðnin lækkað í þeim heilbrigðisumdæmum þar sem hún var hæst. Enn er þó mikill munur á tíðni ávísana milli heilbrigðisumdæma og er hún sem fyrr hæst á höfuðborgarsvæðinu. Þátttaka í skimun fyrir leghálskrabbameini og brjóstakrabbameini hefur minnkað undanfarin ár en þátttakan stóð í stað milli áranna 2017 og 2018 ef horft er á landið í heild. Þátttaka í þessum skimunum en þó enn talsvert breytileg milli heilbrigðisumdæma. Tíðni liðskiptaaðgerða á mjöðm og hné hefur farið vaxandi í kjölfar átaks til styttingar biðlista. Aldursstöðluð aðgerðatíðni er hæst á Norðurlandi og Austurlandi. Komum á heilsugæslustöðvar á íbúa hefur fjölgað síðustu 2 ár ef á heildina er litið. Mest er fjölgunin á höfuðborgarsvæðinu þar sem nýtt fjármögnunarkerfi var tekið í notkun á árinu 2017, sem hefur m.a. það markmið að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað sjúklinga. Á sama tíma hefur lítillega dregið úr komum til sjálfstætt starfandi sérfræðilækna og er fjöldi koma á íbúa mjög mismunandi eftir heilbrigðisumdæmum. Flestar eru þær á höfuðborgarsvæðinu þar sem mest framboð er af þessari þjónustu.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar sagði frá hvernig Reykjanesbær nýtir sér lýðheilsuvísa sem hvatningu til að bæta heilsu og líðan íbúanna. Einnig sagði hann frá samstarfi sveitarfélaga á Suðurnesjum og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja um aðgerðir er varða lýðheilsu.

Að lokum fjallaði Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga um hvernig sambandi vinnur með embættinu að innleiðingu Heilsueflandi samfélaga.

Afar góð mæting var á fundinn sem stjórnað var af Markúsi Ingólfi Eiríkssyni, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.

Allar upplýsingar um lýðheilsuvísa 2019 má finna á vef landlæknis.