Fara beint í efnið

11. apríl 2019

Hjúkrunarrými á Íslandi – biðlistar, biðtími, lengd búsetu og uppbygging

Embætti landlæknis ber lögum samkvæmt að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og fylgist reglulega með aðgengi að þeirri þjónustu, svo sem biðlistum og biðtíma. Embættið hefur tekið saman greinargerð fyrir árið 2018 þar sem fram koma upplýsingar varðandi biðlista, biðtíma, lengd búsetu og fyrirhugaða uppbyggingu hjúkrunarrýma.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Embætti landlæknis ber lögum samkvæmt að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og fylgist reglulega með aðgengi að þeirri þjónustu, svo sem biðlistum og biðtíma.

Embættið hefur tekið saman greinargerð fyrir árið 2018 þar sem fram koma upplýsingar varðandi biðlista, biðtíma, lengd búsetu og fyrirhugaða uppbyggingu hjúkrunarrýma.

Það er áhyggjuefni að biðlistar eftir hjúkrunarrýmum hafa haldið áfram að lengjast. Um áramótin 2018/2019 voru 395 einstaklingar á biðlista eftir varanlegri dvöl í hjúkrunarrými sem jafngildir 31,7 á hverja 1.000 íbúa 80 ára og eldri (31,7/1.000). Fimm árum fyrr var samsvarandi hlutfall 23,0/1.000.

Lengri biðlistar hafa leitt til lengri biðtíma. Árið 2014 biðu 26% þeirra sem fengu hjúkrunarrými lengur en 90 daga eftir rými en árið 2018 biðu 42% lengur en 90 daga.

Löng bið eftir hjúkrunarrýmum er verulegt áhyggjuefni sem endurspeglast meðal annars í fjölda einstaklinga sem bíða eftir varanlegri dvöl á hjúkrunarheimili á Landspítalanum. Jákvætt er þó að þeim einstaklingum sem eru með gilt færni- og heilsumat og bíða eftir að komast í varanleg úrræði utan spítalans virðist hafa fækkað síðan í desember, samkvæmt starfsemisupplýsingum Landspítala frá febrúar 2019.

Embætti landlæknis lýsir eins og áður yfir áhyggjum af stöðunni og þeim áhrifum sem löng bið eftir hjúkrunarrýmum getur haft, bæði á lífsgæði þeirra sem bíða svo og heilbrigðiskerfið. Vonir standa til að áætluð opnun hjúkrunarrýma á næstu misserum muni bæta ástandið. Þá er brýnt að efla heimahjúkrun og stuðla að heilsueflingu eldri borgara.

Nánari upplýsingar veitir:
Laura Sch. Thorsteinsson, teymisstjóri úttekta, laura@landlaeknir.is