13. nóvember 2018
13. nóvember 2018
Heilsufarsógnir af völdum loftmengunar og loftslagsbreytinga
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hélt nýlega sína fyrstu alþjóðlegu ráðstefnu í Genf um mengun andrúmslofts, loftslagsbreytingar og heilsu.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hélt nýlega sína fyrstu alþjóðlegu ráðstefnu í Genf um mengun andrúmslofts, loftslagsbreytingar og heilsu. Með ráðstefnunni vildi WHO vekja athygli á þeim heilsufarsáhrifum sem mengun og loftslagsbreytingar valda og hvetja þjóðir til mótverkandi aðgerða.
Á hverju ári er talið að í heiminum öllum látist um 7 milljónir einstaklinga af völdum loftmengunar og þar af um 500.000 börn yngri en 5 ára. Hundruðir milljóna þjást og á það var bent, að loftmengun orsakar um 40% langvarandi lungnasjúkdóma, 25% hjarta- og æðasjúkdóma, 25% heilablóðfalla og 30% lungnakrabbameins.
Helsta orsök þessarar mengunar og loftslagsbreytinga er bruni jarðefna (dísil, bensín, kol, gróður) af mannavöldum alls staðar í heiminum sem þó er mestur í Suðaustur-Asíu og Afríku.
Nýlegar skýrslur á vegum Umhverfisstofnunar og „Vísindanefndar um loftslagsbreytingar á Íslandi“ sýna glöggt að mengun andrúmslofts og loftslagsbreytingar eru einnig vandamál á Íslandi þó mengunin sé hér minni en víða annars staðar. Evrópska Umhverfisstofnunin áætlar að hér á landi valdi loftmengun rúmlega 80 ótímabærum dauðsföllum á ári og nokkrar íslenskar rannsóknir sýna óyggjandi að mengunin veldur hér ýmsum heilsufarslegum vandamálum.
Í september 2018 var kynnt aðgerðaáætlun ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum til 2030. Þar komu fram áform um að ráðast í margvíslegar aðgerðir til að stemma stigu við loftmengun og loftslagsbreytingum. Mikilvægt er að auka vitund allra í íslensku samfélagi um mikilvægi þess að takmarka hér mengandi starfsemi. Hér er átt við stjórnvöld, opinberar stofnanir, einkafyrirtæki, félagasamtök og ekki síst hvern og einn einstakling þessa lands.
Ef ekki tekst að minnka mengandi starfsemi hér á landi og í heiminum öllum á næstunni þá munum við horfa fram á óafturkræfar breytingar á íslensku samfélagi sem munu ógna heilsufari, lífsháttum og öllum innviðum. Tími umræðu um vandamálið er liðinn en tími aðgerða runninn upp.
Lesa nánar:
Sóttvarnalæknir