Fara beint í efnið

22. febrúar 2019

Heilsuefling á vinnustöðum - undirritun viljayfirlýsingar

Alma D Möller landlæknir, Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri VIRK og Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir forstjóri Vinnueftirlitsins rituðu undir viljayfirlýsingu um heilsueflingu á vinnustöðum undir lok velheppnaðs morgunfundar um mikilvægi vellíðunar á vinnustöðum fimmtudaginn 21. febrúar.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Alma D Möller landlæknir, Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri VIRK og Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir forstjóri Vinnueftirlitsins rituðu undir viljayfirlýsingu um heilsueflingu á vinnustöðum undir lok velheppnaðs morgunfundar um mikilvægi vellíðunar á vinnustöðum fimmtudaginn 21. febrúar.

Í yfirlýsingunni lýsa Embætti landlæknis, Vinnueftirlit ríkisins og VIRK Starfsendurhæfingarsjóður yfir vilja um samstarf varðandi heilsueflingu og forvarnir á vinnustöðum, byggt á sömu hugmyndafræði og verkefnin um Heilsueflandi samfélag og Heilsueflandi leik-, grunn-, og framhaldsskóli.

Markmið verkefnisins er að stuðla að betri heilsu og vellíðan vinnandi fólks á vinnustöðum, fyrirbyggja kulnun og minnka brottfall af vinnumarkaði. Í samstarfinu felst mótun viðmiða fyrir heilsueflandi vinnustaði sem og upplýsingamiðlun til að tryggja að vinnustaðir hafi góð verkfæri til að skapa heilsueflandi umhverfi.Til að ná markmiðum verkefnisins verður litið til erlendra fyrirmynda í sambærilegum verkefnum sem hafa gefist vel sem og nýttur grunnur að heilsueflingu á vinnustöðum sem þegar er til staðar hér á landi.

Samstarfsaðilar stefna að því að eigi síðar en haustið 2019 verði farið formlega af stað með tilraunaverkefni 10 vinnustaða af mismunandi stærðum og gerðum sem innleiða viðmið heilsueflandi vinnustaða.