Fara beint í efnið

5. maí 2018

Handhreinsun til að fyrirbyggja sýkingar

Á hverju ári minnir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) á að 5. maí er alþjóðlegi handþvottadagurinn. Handhreinsun er mikilvægasta aðgerðin til að draga úr smiti á milli manna og sýkingavörn númer eitt.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Á hverju ári minnir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) á að 5. maí er alþjóðlegi handþvottadagurinn. Handhreinsun mikilvægasta aðgerðin til að draga úr smiti á milli manna og sýkingavörn númer eitt.

Að þessu sinni er áhersla lögð á mikilvægi þess að fyrirbyggja blóðsýkingar í heilbrigðisþjónustu. Sjá upplýsingar um blóðsýkingu á vef WHO.

Blóðsýking, sem einnig nefnist sýklasótt, verður þegar örverur komast í blóðrásina og fjölga sér. Slíkar sýkingar geta verið fylgifiskur heilbrigðisþjónustu, einkum hjá mikið veikum einstaklingum sem þurfa flókna meðferð. Geta sýkingarnar haft alvarlegar afleiðingar. Handhreinsun heilbrigðisstarfsfólks og góðar sýkingavarnir skipta miklu máli við að fyrirbyggja sýkingar.

Hér má sjá stutt myndband á ensku sem útskýrir blóðsýkingu.

Þrátt fyrir að hvatning WHO beinist sérstaklega að heilbrigðisstarfsfólki þá er hún ætluð öllum því handhreinsun sem sýkingavörn á allsstaðar við.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur undanfarin ár starfrækt verkefnin „Clean care is safer care" sem mætti þýða á íslensku sem „Hreinlæti og heilbrigðisþjónusta fara hönd í hönd" og „Save lives: Clean your hands" sem útleggja má „Þrífðu hendur þínar – bjargaðu mannslífum". Tilgangur verkefnanna er að vekja athygli á mikilvægi handhreinsunar í heilbrigðisþjónustu, handþvotti eða handsprittun, hvort sem þjónustan er veitt innan eða utan stofnana.

Einstakar stofnanir geta skráð sig til þátttöku í verkefninu á vef WHO.

Sóttvarnalæknir