Fara beint í efnið

6. júlí 2020

Greinargerð komin út um stöðu á biðlistum eftir hjúkrunarrýmum

Embætti landlæknis hefur tekið saman greinargerð þar sem fjallað er um stöðu á biðlistum eftir hjúkrunarrýmum árið 2019 og á fyrstu mánuðum ársins 2020.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Embætti landlæknis hefur tekið saman greinargerð þar sem fjallað er um stöðu á biðlistum eftir hjúkrunarrýmum árið 2019 og á fyrstu mánuðum ársins 2020.

Árið 2019 fluttust 977 einstaklingar á hjúkrunarheimili til varanlegrar búsetu. Af þeim biðu 46% lengur en 90 daga eftir rýminu, 54% biðu því skemur. Á fyrsta ársfjórðungi 2020 biðu um 60% skemur en 90 daga eftir hjúkrunarrými en markmið stjórnvalda fyrir árið 2020 er að 65% fái rými innan 90 daga.

Í greinargerðinni er fjallað um stöðu á biðlistum í hverju heilbrigðisumdæmanna sjö. Opnun nýrra hjúkrunarrýma á árinu 2019 og snemma árs 2020 á höfuðborgarsvæðinu virðist hafa haft jákvæð áhrif á bið, en eftir stöðuga fjölgun á biðlistum hafa þeir nú styst og biðtími einnig. Árið 2019 var miðgildi biðtíma styst hjá einstaklingum á Suðurlandi.

Mikilvægt er að áætlun um opnun 568 nýrra rýma á landsvísu til ársins 2023 verði að raunveruleika svo unnt verði að stytta biðtíma enn frekar og koma í veg fyrir að einstaklingar þurfi að dvelja langdvölum á bráðasjúkrahúsi á meðan beðið er eftir rými. Þá hvetur embættið eins og áður til eflingar heilsu eldri borgara og heimahjúkrunar.

Nánari upplýsingar veitir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, netfang kjartanh@landlaeknir.is