Fara beint í efnið

6. september 2018

Göngum, hjólum eða notum annan virkan ferðamáta í skólann

Í gær var Göngum í skólann formlega sett í Ártúnsskóla í Reykjavík. Meginmarkmið Göngum í skólann er að hvetja nemendur og foreldra á Íslandi til að ganga, hjóla eða nota annan virkan ferðamáta til og frá skóla.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Í gær var Göngum í skólann formlega sett í Ártúnsskóla í Reykjavík.

Meginmarkmið Göngum í skólann er að hvetja nemendur og foreldra á Íslandi til að ganga, hjóla eða nota annan virkan ferðamáta til og frá skóla. Með þessu er verið að hvetja til aukinnar hreyfingar fyrir alla fjölskylduna, auk þess að efla færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann. Slysavarnarfélagið Landsbjörg fór yfir reglur um öryggi á göngu og á hjóli á sama tíma og börnin voru frædd um ávinning reglulegrar hreyfingar. Með verkefninu er einnig verið að stuðla að vitundarvakningu um ferðamáta og umhverfismál: Hversu ,,gönguvænt“ umhverfið er og hvar úrbóta er þörf.

Við athöfnina bauð Rannveig Andrésdóttir skólastjóri nemendur og gesti velkomna og Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ stjórnaði dagskrá. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs flutti stutt ávarp og Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu tók til máls. Einnig fluttu nemendur í Ártúnsskóla lög fyrir viðstadda og Sirkus Íslands skemmti nemendum við góðar undirtektir. Að lokum gengu nemendur, starfsfólk og gestir hring í skólahverfinu og hófu verkefnið með táknrænum hætti.

Þeir sem standa að verkefninu hér á landi eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Embætti landlæknis, Ríkislögreglustjóri, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Samgöngustofa og Heimili og skóli.

Þetta er í 12. skipti sem Ísland tekur þátt í alþjóðlega verkefninu Göngum í skólann. Verkefnið hófst í Bretlandi árið 2000 og hefur þátttaka stöðugt farið vaxandi. Á alþjóðavísu er Göngum í skólann mánuðurinn í október og Alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn er 10. október. Vegna birtu og veðuraðstæðna fer Göngum í skólann verkefnið fram hér á Íslandi í septembermánuði og því lýkur á Alþjóðlega Göngum í skólann deginum þann 10. október.

Skráning fer mjög vel af stað og enn er hægt skrá skóla til leiks. Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu verkefnisins www.gongumiskolann.is

Ingibjörg Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Heilsueflandi grunnskóla