14. júlí 2021
14. júlí 2021
Gollurshússbólga og hjartavöðvabólga tengd mRNA bóluefnum
Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hefur skorið úr um að aukin tíðni gollurshússbólgu (e. pericardititis) og hjartavöðvabólgu (e. myocarditis) sé eftir bólusetningu með mRNA bóluefnunum Comirnaty (Pfizer/BioNTech) og Spikevax (Moderna).
Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hefur skorið úr um að aukin tíðni gollurshússbólgu (e. pericardititis) og hjartavöðvabólgu (e. myocarditis) sé eftir bólusetningu með mRNA bóluefnunum Comirnaty (Pfizer/BioNTech) og Spikevax (Moderna).
Þótt þessar aukaverkanir virðist fátíðar skv. greinargerð EMA (u.þ.b. 1 tilvik/100.000 skammta) þá hafa fáein tilvik komið upp hér á landi skv. samskiptum lækna Landspítala við embætti landlæknis. Slík atvik virðast algengust hjá ungum karlmönnum og eftir seinni skammt en til hjá öllum kynjum, á öllum aldri og hafa komið upp eftir fyrri skammt.
Sjúkdómsgangur er sagður svipaður og við gollurshússbólgur og hjartavöðvabólgur af öðrum orsökum, en í einhverjum tilvikum hefur þurft meðferð á sjúkrahúsi, jafnvel á gjörgæslu. Skv. greinargerð EMA hafa orðið 5 dauðsföll í tengslum við þessa aukaverkun í Evrópu, hjá öldruðum einstaklingum og fólki með undirliggjandi sjúkdóma.
Einstaklingar sem fá mRNA bóluefni og taka eftir eftirfarandi einkennum innan 2ja vikna frá bólusetningu ættu að leita sér læknisaðstoðar:
mæði
þungur og/eða óreglulegur hjartsláttur
brjóstverkur
Heilbrigðisstarfsmenn ættu að tilkynna atvik af þessu tagi til Lyfjastofnunar.
Þar til nánari upplýsingar um tíðni og sjúkdómsgang gollurshússbólgu og hjartavöðvabólgu eftir mRNA bólusetningu barna við COVID-19 liggja fyrir, og á meðan smithætta vegna COVID-19 er hverfandi hérlendis er ekki hægt að útiloka að hætta á alvarlegum aukaverkunum sé meiri en hætta á alvarlegum veikindum vegna COVID-19 hjá hraustum börnum. Því verður ekki mælt með almennum bólusetningum hraustra barna 12-15 ára við COVID-19 að svo stöddu. Foreldrar munu geta óskað eftir bólusetningu barna sinna á einstaklingsgrundvelli eftir sumarleyfi heilsugæslu. Mælt er með að börn með áhættuþætti m.t.t. alvarlegra veikinda vegna COVID-19 séu bólusett.
Sóttvarnalæknir