9. apríl 2020
9. apríl 2020
Gefum af okkur - sýnum góðvild og samkennd
Í þeim aðstæðum sem við stöndum frammi fyrir þessa dagana er mikilvægt að velja vel hvernig við viljum bregðast við þessum nýju áskorunum.
Embætti landlæknis hefur tekið saman tíu heilræði sem byggja á niðurstöðum rannsókna á því hvað er mikilvægt að hafa í huga til að hlúa að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Heilræði dagsins í dag snýr að mikilvægi þess að gefa af sér góðvild og samkennd.
Gerum eitthvað fallegt fyrir aðra. Sýnum samkennd í verki. Brosum. Gefum öðrum af tíma okkar með því að hringja, sýna áhuga og tjá þakklæti fyrir vináttu eða greiða. Bjóðum fram krafta okkar ef við höfum tök á. Að sjá okkur sjálf sem hluta af stærra samhengi veitir lífsfyllingu og eflir tengsl við aðra.
Í þeim aðstæðum sem við stöndum frammi fyrir þessa dagana er mikilvægt að velja vel hvernig við viljum bregðast við þessum nýju áskorunum. Geðlæknirinn Viktor Frankl, sem lifði af fangabúðir nasista og skrifaði eftir það bókina Leitin að tilgangi lífsins, sagði að það eina sem ekki er hægt að taka frá okkur er frelsið til að velja viðhorf okkar í hvaða aðstæðum sem er.
Að velja góðvild og samkennd er með því uppbyggilegasta sem við getum valið. Það getur verið gott að byrja á því að sýna okkur sjálfum góðvild og samkennd, hugsa fallega til okkar eins og við hugsum til þeirra sem okkur þykir vænt um og hrósa okkur fyrir það sem við höfum gert vel. Því næst getum við hugsað um hvernig við getum gert eitthvað fallegt fyrir aðra. Það getur verið frá einhverju einföldu eins og að heilsa og brosa framan í fólk sem við mætum á göngu. Við getum hringt í þau sem okkur eru kær, þau sem við getum ekki hitt núna vegna fjarlægðartakmarkana og sérstaklega þau sem við vitum að eru ein eða einmana. Við getum gefið þeim tíma, hlustað á hvað þau hafa að segja, þakkað þeim fyrir hvað þau hafa gefið okkur og tjáð þeim væntumþykju. Einnig getur verið gott að skoða hvort við getum gert einhverjum greiða. Þekkjum við einhver sem við getum farið út í búð fyrir? Getum við fært einhverjum blóm og lífgað þannig upp á tilveruna hjá þeim sem eru einmana, í sóttkví eða einangrun?
Ef við eigum enn meiri tíma aflögu getum við velt fyrir okkur hvort við getum gert gagn í samfélaginu. Skráð okkur í bakvarðasveitir, tekið þátt í sjálfboðaliðastarfi og sýnt þannig góðvild og samkennd í verki.
Rannsóknir sýna að það veitir okkur meiri ánægju og lífsfyllingu að gefa en að þiggja. Þetta á jafnt við um veraldlegar gjafir og félagslegan stuðning. Gerum okkar allra besta til að gefa af okkur á þessum sérstöku tímum. Gefum af okkur góðvild og samkennd, það gerir öðrum gott og ekki síður okkur sjálfum.
Með bestu óskum um gleði, góðvild og samkennd um páskana.
Nánari upplýsingar um hvað hægt er að gera til að bæta líðan má finna á Heilsuveru
Lýðheilsusvið embættis landlæknis