Fara beint í efnið

17. desember 2020

Fyrstu bólusetningar gegn COVID-19 hefjast eftir jól

Eins og fram hefur komið þá hefur Ísland tryggt sér bóluefni fyrir stóran hluta þjóðarinnar.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Eins og fram hefur komið þá hefur Ísland þegar tryggt sér bóluefni fyrir stóran hluta þjóðarinnar. Samningur við bóluefnaframleiðandann Pfizer hljóðar upp á bóluefni fyrir um 85.000 einstaklinga og við Astra-Zeneca upp á fyrir um 115.000 einstaklinga. Samningar við fleiri framleiðendur eru í burðarliðnum.

Von er á markaðsleyfi fyrir bóluefnið frá Pfizer fyrir jól en fyrir bóluefnið frá Astra-Zeneca í byrjun árs 2021.

Í dreifingaráætlun frá Evrópusambandinu sem birt var fyrir nokkru fyrir bóluefnið frá Pfizer, var gert ráð fyrir að hingað kæmu skammtar fyrir um 10 þúsund manns í lok árs 2020 og 20 þúsund í byrjun árs 2021.

Vegna framleiðsluvandamála þá hefur þessi áætlun riðlast og nú er ljóst að skammtar fyrir um 5.000 manns koma um jólin og 8.000 manns í janúar/febrúar á næsta ári.

Vegna þessa þá hefur sóttvarnalæknir endurskipulagt fyrstu bólusetningarnar í samráði við heilbrigðisráðherra og í samræmi við heimildir reglugerðar um forgangsröðun.

Strax eftir jól er fyrirhugað að hefja bólusetningu hjá framlínustarfsmönnum í heilbrigðisþjónustunni sem telur rúmlega 1.000 manns. Jafnframt verður hafin bólusetning hjá vistmönnum á hjúkrunarheimilum og öldrunarstofnunum sem telja 3.000-4.000 manns. Þegar önnur sending kemur í janúar/febrúar á næsta ári verður haldið áfram með bólusetningu hjá elstu aldurshópunum.

Þó að fyrstu sendingar bóluefna gegn COVID-19 séu takmarkaðri en vonir stóðu til þá er rétt að gleðjast yfir því að bólusetningar séu nú loks að hefjast.

Sóttvarnalæknir