Fara beint í efnið

9. september 2020

Fréttatilkynning vegna athugunar á gögnum frá Sjúkratryggingum Íslands

Fulltrúar Sjúkratrygginga Íslands, Krabbameinsfélags Íslands og embættis landlæknis funduðu sameiginlega í dag til að fara yfir níu blaðsíðna gagn sem unnið var í desember árið 2017 af greiningardeild SÍ og varðar mælingar og markmið þjónustusamnings við KÍ.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Fulltrúar Sjúkratrygginga Íslands, Krabbameinsfélags Íslands og embættis landlæknis funduðu sameiginlega í dag til að fara yfir níu blaðsíðna gagn sem unnið var í desember árið 2017 af greiningardeild SÍ og varðar mælingar og markmið þjónustusamnings við KÍ.

Augljóst er að umrætt skjal er ófullbúið vinnugagn sem byggir á gögnum frá KÍ og samskiptum starfsmanna KÍ og SÍ. Í skjalinu má finna misskilning og ranga hugtakanotkun enda er krabbameinsskimun flókið viðfangsefni og túlkun efnisins krefst sérfræðiþekkingar.

Skjalið var sent velferðarráðuneytinu í febrúar 2018 án þess að fram kæmi að um vinnugagn væri að ræða en skjalið hafði ekki verið sent KÍ til yfirlestrar áður en því var komið til ráðuneytisins. Aðilar eru sammála um að óábyrgt væri að birta skjalið án nánari skýringa og athugasemda af hálfu KÍ.

Það er mat landlæknis eftir sameiginlega yfirferð með SÍ og KÍ að það séu engar upplýsingar í skjalinu sem kalla á viðbrögð heilbrigðisyfirvalda umfram þá skoðun sem þegar er hafin hjá embætti landlæknis.

Alma D. Möller, landlæknir 

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands 

Ágústi Ingi Ágústsson, yfirlæknir Leitarstöðvar Krabbameinsfélags Íslands