22. mars 2020
22. mars 2020
Frestun valkvæðra skurðaðgerða vegna Covid-19
Heilbrigðisráðherra hefur fallist á erindi landlæknis og staðfest fyrirmæli embættisins um að öllum valkvæðum skurðaðgerðum og öðrum ífarandi aðgerðum, t.d. greiningarrannsóknum verði hætt frá 23. mars til 31. maí næstkomandi.
Heilbrigðisráðherra hefur fallist á erindi landlæknis og staðfest fyrirmæli embættisins um að öllum valkvæðum skurðaðgerðum og öðrum ífarandi aðgerðum, t.d. greiningarrannsóknum verði hætt frá 23. mars til 31. maí næstkomandi. Á þetta við hvort sem um ræðir aðgerðir framkvæmdar innan eða utan spítala, af opinberum aðila eða einkaaðila. Fyrirmælin verða birt í Stjórnartíðindum.
Á meðan faraldur COVID-19 geisar er brýnt að endurskipuleggja heilbrigðisþjónustu þannig að unnt sé að sinna sjúklingum með COVID-19 jafnframt því að veita aðra nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Framangreind ákvörðun er tekin í í þessu ljósi. Er þá annars vegar horft til þess að draga úr smithættu og hins vegar að afstýra hugsanlegum sjúkrahúsinnlögnum sem geta fylgt sumum þessara aðgerða sem ákveðið hefur verið að fresta.
Landlæknir hefur rætt efni fyrirmælanna við forsvarsmenn Læknafélags Íslands, Læknafélags Reykjavíkur, Landspítala, Sjúkratrygginga Íslands og aðrar heilbrigðisstofnanir sem eru þeim samþykk. Heilbrigðisstarfsfólk sem starfað hefur við þær aðgerðir sem nú verður slegið á frest er hvatt til þess að skrá sig í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar.