Fara beint í efnið

6. október 2021

Forvarnardagurinn haldinn í dag

Forvarnardagurinn er haldinn í sextánda skipti í dag 6. október og eru viðburðir tengdir honum í flestum grunn- og framhaldsskólum landsins þar sem sjónum er sérstaklega beint að ungmennum í 9. bekk grunnskóla og á fyrsta ári í framhaldsskóla.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Forvarnardagurinn er haldinn í sextánda skipti í dag 6. október og eru viðburðir tengdir honum í flestum grunn- og framhaldsskólum landsins þar sem sjónum er sérstaklega beint að ungmennum í 9. bekk grunnskóla og á fyrsta ári í framhaldsskóla.

Forvarnardagurinn var kynntur s.l. mánudag í Dalskóla þar sem skólastjórnendur og nemendur tóku vel á móti fulltrúum samstarfsaðila Forvarnardagsins. Hr. Guðni Th. Jóhannessson forseti Íslands, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Alma D. Möller landlæknir ávörpuðu gesti. Þema Forvarnardagsins í ár er andleg líðan ungmenna og var rætt um þá þætti sem geta haft áhrif þar á eins og koffíndrykki, nikótínpúða og svefn. Þá voru verndandi þættir einnig ræddir og áhrif þeirra í að styrkja ungmenni til þess að taka réttar ákvarðanir þegar þau standa frammi fyrir áskorunum. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðstjóri lýðheilsusviðs embættis landlæknis stýrði fundinum.

Niðurstöður könnunar Rannsóknar og greiningar á ungmennum í elstu bekkjum grunnskóla sýna að þriðjungur (33%) nemenda í 10. bekk drekka orkudrykki reglulega og rúmlega helmingur (53%) þeirra  sofa of lítið. Einnig kemur fram að 7% nemenda í 10. bekk nota rafrettur daglega og 9% nemenda í sama árgangi hafa notað nikótínpúða einu sinni eða oftar sl. 30 daga. Aðeins rúmlega 40% stúlkna í 9. og 10. bekk segja andlega heilsu sína vera góða en rúmlega 65% drengja á sama aldri segja slíkt hið sama. Nemendur í 8., 9. og 10. bekk sem segja að andleg heilsa sín sé góð eru líklegri til að fá nætursvefn í samræmi við ráðleggingar. Við í íslensku samfélagi höfum sýnt að með samvinnu og samheldni getum við náð góðum árangri eins og þeim sem náðst hefur að draga úr áfengisnotkun og reykingum ungmenna. Árið 1998 höfðu 42% nemenda í 10. bekk orðið drukkin sl. 30 daga en 2021 voru það 6%. Árið 2000 höfðu 64% framhaldsskólanema orðið ölvuð sl. 30 daga en 2020 voru það 23%. Nú þegar við stöndum frammi fyrir nýjum áskorunum er mikilvægt að nýta þá þekkingu sem skapast hefur til þess að takast á við þær.

Dagskrá Forvarnardagsins byggist á því að nemendur í grunnskólum ræða um hugmyndir sínar um íþrótta- og tómstundastarf, samveru með fjölskyldunni og það að leyfa heilanum að þroskast án neikvæðra áhrifa en allt eru þetta verndandi þættir fyrir áhættuhegðun. Í framhaldsskólum ræða nemendur um þá ákvörðun að drekka ekki áfengi eða seinka því að byrja og hvaða þættir hafa áhrif á þá ákvörðun. Nemendur á báðum skólastigum fá kynningu frá kennurum skólans og fara í hópavinnu þar sem þau skrá hugmyndir sínar. Þátttakandi skólar setja upp skipulag í skólanum og fá afhent kennsluefni til að vinna með í þeim tilgangi.

Á Forvarnardaginn hefur verið hefð fyrir því að forseti og borgarstjóri fari í skólaheimsóknir og fái að taka þátt í dagskrá skólanna. Í ár mun Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands heimsækja Laugalækjarskóla og Menntaskólann í Kópavogi og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri heimsækja Árbæjarskóla.

Efni Forvarnardagsins hefur nýlega verið uppfært og verður í dreifingu á samfélagsmiðlum samstarfsaðila næstu daga. Á vefsíðunni www.forvarnardagur.is er að finna upplýsingar um Forvarnardaginn auk þess sem kennsluefni fyrir þátttökuskólana er aðgengilegt inn á læstu svæði. Nemendur geta tekið þátt í leik sem er að finna á forsíðu vefsíðunnar og dregið verður úr réttum svörum þann 21. október næstkomandi.  Verðlaun verða veitt fyrir heppna þátttakendur sem dregnir eru út og mun forseti Íslands afhenda verðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.

Embætti landlæknis fer með verkefnastjórn Forvarnardagsins sem unnin er í samstarfi við embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Bandalags íslenskra skáta, Ungmennafélag Íslands, Rannsóknir og greiningu, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samstarf félagasamtaka í forvörnum, Samfés og Heimili og skóla.  

Verkefnastjórn Forvarnardagsins

Ingibjörg Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Heilsueflandi grunnskóla
Inga Berg Gísladóttir, verkefnastjóri Heilsueflandi framhaldsskóla
Rafn M. Jónsson, verkefnisstjóri áfengis- og vímuvarna