Fara beint í efnið

10. apríl 2019

Forseti Íslands afhendir Gulleplið 2019 næstkomandi föstudag

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson afhendir föstudaginn 12. apríl kl. 15:00 Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Gulleplið 2019, hvatningarverðlaun Heilsueflandi framhaldsskóla fyrir framúrskarandi heilsueflingarstarf.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Framúrskarandi heilsueflingarstarf – Fjölbrautaskólinn í Breiðholti

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson afhendir föstudaginn 12. apríl Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Gulleplið 2019, hvatningarverðlaun Heilsueflandi framhaldsskóla fyrir framúrskarandi heilsueflingarstarf.

Verðlaunin verða afhent í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti kl. 15.00.

Gulleplið 2019: Stuðningur við bættan svefn og svefnvenjur framhaldsskólanema

Rannsóknir sýna að 70% framhaldsskólanema sofa of lítið hér á landi og svefnskortur hefur slæm áhrif á heilsu og vellíðan. Heilsueflandi framhaldsskólar geta stutt við bættar svefnvenjur og aukinn svefn nemenda með ýmsum leiðum s.s.

  • Að kenna um áhrif svefns á dægursveiflu, líkamsstarfsemi, frammistöðu, heilsu og líðan.

  • Að stuðla að samstarfi heimila og skóla varðandi góðar svefnvenjur.

  • Að seinka skólabyrjun að morgni.

  • Að samstilla viðburði á vegum skólans við skólabyrjun þannig að nemendur eigi ávallt kost á fullum svefni.

Fjölbrautaskólinn í Breiðholti heldur uppi markvissu starfi til að bæta svefn og svefnvenjur nemenda sinna. Í skólanum hefur markviss fræðsla átt sér stað fyrir nemendur um mikilvægi svefns fyrir ungt fólk. Einnig eru gerðar tilraunir með upphaf skólabyrjunar og skólinn býður upp á sveigjanleika fyrir þá nemendur sem á þurfa að halda. Skólinn vann markvisst að því að taka upp þá þætti sem taldir eru skipta hvað mestu máli til að bæta svefnvenjur nemenda. Áhersla er lögð á svefn og svefnvenjur í foreldrasamstarfi, að nemendum sé gefinn kostur á að hefja skóladaginn síðar í samráði við námsráðgjafa og tekur þannig tillit til einstaklingsbundinna þarfa. Þá er nemendum gefið frí í fyrsta tíma eftir skólaball þannig að þau nái átta tíma svefn þrátt fyrir skólaskemmtun.

Dagskrá verðlaunaafhendingar:

  • Hr. Guðni Th. Jóhannesson – Ávarp

  • Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur – Hvernig eru svefnvenjur íslenskra framhaldsskólanema?

  • Dr. Erla Björnsdóttir – Svefn og svefnvenjur

  • Afhending Gulleplisins

Kaffi og meðlæti eftir afhendingu.

                                                                        -------------------------------------

Nánar um stuðning við svefn og svefnvenjur í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti úr umsókn frá skólanum. Fjölbrautaskólinn í Breiðholti hefur unnið markvisst að sameiginlegri forvarnarstefnu Félags íslenskra framhaldsskóla frá árinu 2014. Markmið stefnunnar er:Ungt fólk á framhaldsskólaaldri hefur sterka sjálfsmynd, ber ábyrgð á eigin heilsu, forðast að nota áfengi, tóbak eða vímuefni, hugar að næringu, hreyfingu og svefni, hefur heilbrigða sýn á sig sem kynveru og gætir að gagnkvæmri virðingu í samskipum við annað fólk.

Áhersla hefur verið lögð á mikilvægi svefns fyrir líðan nemenda og námsárangur með eftirfarandi hætti í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti:

  1. Stuðlað að samstarfi heimilis og skóla um góðar svefnvenjur. Á kynningarfundum með foreldrum nýnema er talað um mikilvægi svefns en á þeim fundi er einnig rætt um lífsgleði og félagstengsl, heilbrigt líferni sem felast í næringu, hreyfingu, svefni og virkri þátttöku ungs fólks í lífinu. Foreldrum er bent á að tryggja að ungmenni fái 8 tíma svefn og þau upplýst um að ungt fólk í framhaldsskólum á Íslandi fari almennt seint að sofa og mörg/flest sofa ekki nóg.

  2. Fjallað er um áhrif svefns á dægursveiflu, líkamsstarfsemi, frammistöðu og heilsu og líðan. Forvarnardagurinn 2015 var nýttur til að fá dr. Erlu Björnsdóttur sérfræðing til að ræða um svefn og svefnvenjur. Áhuginn á efninu er mikill en skortur er á efni til að fræða nemendur. Áhugi er fyrir því að fá slíkt fræðsluefni fyrir framhaldsskólanemendur.

  3. Seinkun á skólabyrjun að morgni. Nemendur voru spurðir hvort þeir vildu seinka skólabyrjun sem var kl. 8.15 sem þeir vildu og nú hefst kennsla kl. 8.30. Síðan þá hafa verið gerðar reglulegar kannanir um skólabyrjun fyrir kennara og nemendur og unnið áfram að því að skoða hvort seinka eigi skólabyrjun enn frekar.

  4. Gefum nemendum frí í fyrsta tíma eftir skólaball. Þeir nemendur sem sækja skólaböll fá frí í fyrsta tíma daginn eftir þó að þeir falli ekki niður. Ástæðan fyrir því að skólinn fellir ekki niður tíma er sú að hann er fjölmennur og í honum eru nemendur á ýmsum aldri. Því eru ekki nærri allir sem sækja skólaböll á vegum skólans.

  5. Nemendum er stundum gefinn kostur á að hefja skóladaginn síðar. Sveigjanleiki áfangakerfisins gerir stjórnendum skólans kleift að aðlaga stundatöflu að nemendum sem eiga erfitt með að vakna á morgnana og þeim er því gefinn kostur í samráði við námsráðgjafa að hefja skóladaginn kl. 9.50.

Starfsfólk Embættis landlæknis hvetur alla framhaldsskóla að skoða hvað þeir geta gert til að stuðla að heilbrigðum svefnvenjum nemenda sinna og óskar Fjölbrautaskólanum í Breiðholti til hamingju með Gulleplið.

Nánari upplýsingar veita:
Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir, verkefnisstjóri Heilsueflandi framhaldsskóla, s: 863-3631
Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskólans í Breiðholti, s: 570-5611