Fara beint í efnið

6. mars 2020

Flensur og aðrar pestir – 9. vika 2020

Í síðustu viku var inflúensan staðfest hjá 43 einstaklingum, sem er næstum helmingi fleiri tilfelli en í síðustu viku.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Staðfest inflúensa á veirufræðideild Landspítala og fjöldi sýna. Í síðustu viku var inflúensan staðfest hjá 43 einstaklingum, sem er næstum helmingi fleiri tilfelli en í síðustu viku. Þar af voru 18 með inflúensu A(H1) pdm09, 7 með inflúensu A(H3), 17 með inflúensu B og 1 með inflúensu B sem ekki var búið að tegundargreina. Frá því um mánaðarmótin september – október hafa samtals 301 einstaklingur verið greindir með staðfesta inflúensu. Flestir hafa greinst á höfuðborgarsvæðinu en inflúensan hefur líka verið staðfest víða annars staðar.

Inflúensan í heilsugæslu og á bráðamóttökum. Fjöldi þeirra sem leituðu til læknis með einkenni inflúensu í 9. viku jókst miðað við vikuna á undan skv. upplýsingum frá heilsugæslunni og bráðamóttökum.

Innlagnir á sjúkrahús. Alls 9 einstaklingar lágu á Landspítala með staðfesta inflúensu í síðustu viku, þar af voru 3 með A(H3), 2 með A(H1)pdm09 og 3 með inflúensu B.

Staðan á meginlandi Evrópu. Inflúensan hefur náð mikilli útbreiðslu á meginlandi Evrópu og víða er mikið um veikindi af völdum hennar. Bæði inflúensa A(H3 og H1pdm09) og inflúensa B greinast, sjá nánar á sameiginlegum inflúensuvef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) og Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).

Samantekt og mat á inflúensunni síðastliðnar vikur. Inflúensan jókst aftur í síðustu viku, bæði fjölgaði staðfestum greiningum á rannsóknarstofunni og fleiri greindust með inflúensulík einkenni í heilsugæslunni og á bráðamóttökum. Á sama tíma jókst mikið fjöldi sýna sem barst í öndunarfæragreiningar á sýkla- og veirufræðideild, sem sennilega útskýrir aukinn fjölda á staðfestri inflúensugreiningu. Hugsanlegt er að órói vegna COVID-19 í samfélaginu orsaki fleiri heimsóknir á heilsugæsluna og á bráðamóttökur vegna inflúensulíkra einkenna. En samkvæmt þessu er mikið um inflúensu í samfélaginu þessar vikurnar.

RSV og aðrar öndunarfæraveirur. Í 9. viku þessa árs var Respiratory Syncytial veirusýkingu (RSV) staðfest hjá 23 einstaklingum sem er svipað og síðastliðnar vikur. Alls voru 11 með Human Metapneumóveiru (hMPV). Einnig hefur greinst töluvert af öðrum öndunarfæraveirum.

Er erfitt að greina á milli nýrrar kórónaveirusýkingu, COVID-19, inflúensu og annarra öndunarfæraveira? Einkenni kórónaveirusýkinga geta verið svipuð inflúensu í upphafi sjúkdóms. Einkenni inflúensunnar koma oftast snögglega og lýsa sér með hita, hósta, hálssærindum, höfuðverk, vöðvaverkjum og almennri vanlíðan. Kórónaveiran getur snögglega valdið neðri loftvegasýkingu með lungnabólgu sem getur gert öndun erfiða, en leiðir sjaldnar til einkenna frá efri öndunarfærum eins og kvefi. Kann það að valda vandamálum við greiningu sjúkdómanna. Þess vegna er mikilvægt að fá góðar upplýsingar um ferðasögu hjá þeim sem eru með hita, hósta, vöðvaverk og almenna vanlíðan þegar slíkir einstaklingar leita til heilbrigðisþjónustunnar.Eins og alltaf eru þeir sem fá þessi einkenni hvattir til þess að halda sig heima og minnt er á að til eru öflug lyf gegn inflúensu (Tamiflu® hylki og Relenza® innúðaðalyf) sem geta dregið úr einkennum inflúensu og flýtt bata ef þau eru tekin innan tveggja sólarhringa frá upphafi einkenna. Þessi lyf eru lyfseðilskyld. Þess má geta að þessi lyf virka ekki gegn kórónaveirunni.

Meltingarfærasýkingar. Svipaður fjöldi leitaði á heilsugæsluna og á bráðamóttökur með niðurgang síðastliðna viku borið saman við meðaltal sömu viku sl. fimm ár. Í síðustu viku voru 13 einstaklingar með staðfesta sýkingu af völdum nóróveiru og 3 greindust með rótaveirusýkingu. Nóróveiran virðist því enn vera í dreifingu í samfélaginu. Einnig greindust adenóveira, sapóveira og astroveira stöku sinnum.

Sóttvarnalæknir