Fara beint í efnið

21. febrúar 2018

Flensur og aðrar pestir - 7. vika (12.–18. febrúar) 2018

Nokkuð hefur dregið úr aðsendum sýnum til veirufræðideildar vegna greininga á öndunarfærasýkingum í viku 7. Inflúensa B er ennþá mest áberandi.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Staðfest inflúensa á veirufræðideild Landspítala. Nokkuð hefur dregið úr aðsendum sýnum til veirufræðideildar vegna greininga á öndunarfærasýkingum í viku 7. Inflúensa B er ennþá mest áberandi.

Inflúensan í heilsugæslu og á bráðamóttökum. Í síðustu viku (7. viku) fækkaði þeim sem greindust með inflúensulík einkenni í heilsugæslunni og bráðamóttökum borið saman við vikuna á undan, sjá mynd 1.

Staðan á meginlandi Evrópu. Inflúensan var áfram í mikilli útbreiðslu á meginlandi Evrópu í 6. viku (5.–11. febrúar), sjá inflúensuvef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Inflúensa B var enn ríkjandi en bæði inflúensa A(H3) og inflúensa A(H1)pdm09 greindust á meginlandinu. Hlutfall þessara veirustofna er breytilegt milli landa og vöktunarkerfa.

Innlagnir vegna inflúensu á Landspítala. Samkvæmt upplýsingum frá sýkingavarnadeild Landspítala heldur innlögnum áfram að fækka í 7. viku borið saman við vikurnar á undan. Mynd 2 sýnir aldursdreifingu þeirra sem lagðir voru inn á Landspítala með inflúensu frá því í 37. viku 2017. Flestir sem lögðust inn vegna inflúensu voru einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma eða aldraðir.

RSV og aðrar öndunarfæraveirur. Þeim fækkar nokkuð sem greinast með staðfesta Respiratory Syncytial veirusýkingu (RSV). Í 7. viku var veiran staðfest hjá 9 einstaklingum. Í síðustu viku var human metapneumóveira staðfest hjá sjö einstaklingum en þeir sem greinast með þessa veiru geta haft svipuð einkenni og RSV veldur hjá börnum.

Samantekt og mat á öndunarfæraveirum síðastliðnar vikur. Vísbendingar eru um að byrjað sé að draga úr árstíðabundnu inflúensunni.

Meltingarfærasýkingar. Samkvæmt tilkynningum frá heilsugæslunni og bráðamóttökum var niðurgangur tíðari en gera má ráð fyrir á þessum árstíma. Vísbendingar eru um að dregið hafi úr fjölda tilfella vegna niðurgangs í viku 7, sjá mynd 3. Aldursdreifing niðurgangstilfella sýnir að aukningin var mest meðal barna á aldrinum 1–4 ára. Líkleg skýring á því var aukin tíðni á rótaveirusýkingu meðal ungra barna.

Sóttvarnalæknir