Fara beint í efnið

18. desember 2019

Flensur og aðrar pestir - 50. vika 2019

Fyrstu inflúensutilfelli þessa vetrar voru staðfest í fyrri hluta október. Flestir greindust 7.–13. október síðastliðinn þegar smit barst á milli inniliggjandi sjúklinga og starfsmanna Landspítala.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Staðfest inflúensa á veirufræðideild Landspítala og fjöldi sýna. Fyrstu inflúensutilfelli þessa vetrar voru staðfest í fyrri hluta október. Flestir greindust dagana 7.–13. október síðastliðinn þegar smit barst á milli inniliggjandi sjúklinga og starfsmanna á Landspítala. Bólusetningum starfsmanna gegn inflúensu var því flýtt og í kjölfarið dró úr inflúensunni á sjúkrahúsinu. Samtals hafa 43 einstaklingar greinst með staðfesta inflúensu frá því í október á þessu ári, þar af 35 með inflúensu A(H3), fimm með inflúensu A(H1)v og þrír með inflúensu B. Flestir greindust í fyrri hluta október og í nóvember voru ein til tvær sýkingar staðfestar vikulega. En í síðustu viku var inflúensan staðfest hjá níu manns, þar á meðal voru fyrstu fimm inflúensu A(H1)v sýkingar vetrarins.

Inflúensan í heilsugæslu og á bráðamóttökum. Á síðastliðnum vikum hafa fáir leitað til læknis með einkenni inflúensu samkvæmt upplýsingum frá heilsugæslunni og bráðamóttökum.

Staðan á meginlandi Evrópu. Þessar vikurnar er virkni inflúensunnar að aukast í Evrópu en hægt er að skoða það nánar á sameiginlegum inflúensuvef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) og Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Inflúensa A greinist oftar og virðist inflúensa A(H3) vera algengust.

Samantekt og mat á inflúensunni síðastliðnar vikur. Frá því í byrjun október hefur inflúensa verið staðfest hjá 43 einstaklingum en fáir eru með inflúensu samkvæmt klínísku mati læknis. Inflúensan virðist því ekki hafa náð útbreiðslu í samfélaginu enn sem komið er.

RSV og aðrar öndunarfæraveirur. Í fyrstu viku desembermánaðar greindist fyrsta Respiratory Syncytial veirusýking (RSV) þessa vetrar og í síðustu viku voru tveir með staðfesta RSV. Mest hefur greinst af rhinoveiru sem er veiran sem hvað oftast veldur kvefi. Stöku greiningar eru einnig af parainflúensu, adenó- og enteróveiru og í síðustu viku var Human Metapneumóveira (hMPV) greind í fyrsta sinn á þessum vetri.

Meltingarfærasýkingar. Fleiri leituðu á heilsugæsluna og á bráðamóttökur með niðurgang í október og nóvember borið saman við meðaltal niðurgangs á þessu tímabili síðastliðin ár. Í desember hefur fjöldi tilfella verið svipaður fyrri árum, en yfirleitt sést aukning á niðurgangi fyrir jól sem oftast minnkar yfir hátíðarnar.

Í október og nóvember greindust óvenjumargir með staðfesta sýkingu af völdum nóróveiru. Auk þess bárust upplýsingar um sýkingahrinur af völdum nóróveiru í daggæslu barna, á dvalar- og hjúkrunarheimilum og á stórum vinnustöðum. Líklegt er að þessi aukning á niðurgangi endurspegli óvenjumikla útbreiðslu af nóróveiru í samfélaginu.

Í haust hefur greinst töluvert af adenóveiru í sýnum sem hafa borist til rannsóknar á iðrakveisuveirum og stöku einstaklingar hafa verið með astróveiru.

Sóttvarnalæknir