Fara beint í efnið

21. desember 2018

Flensur og aðrar pestir - 50. vika 2018

Frá því um miðjan október á þessu ári hefur inflúensa A verið staðfest hjá 37 einstaklingum. Nokkrir þeirra sem hafa greinst eru ferðamenn sem smituðust erlendis en flestir einstaklingar hafa smitast hér á landi.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Staðfest inflúensa á veirufræðideild Landspítala. Frá því um miðjan október á þessu ári hefur inflúensa A verið staðfest hjá 37 einstaklingum. Nokkrir þeirra sem hafa greinst eru ferðamenn sem smituðust erlendis en flestir einstaklingar hafa smitast hér á landi. Aðeins tveir einstaklingar hafa greinst með inflúensu af B-stofni það sem af er þessum vetri en inflúensa B var ríkjandi seinni part síðasta inflúensutímabils.

Inflúensan í heilsugæslu og á bráðamóttökum. Í viku 50 voru samtals 39 sjúklingar með inflúensulík einkenni sem leituðu til heilsugæslunnar og á bráðamóttökur, sjá mynd 1.

Staðan á meginlandi Evrópu. Lítið er um inflúensu á meginlandi Evrópu en hægt er að sjá nánari upplýsingar á sameiginlegum inflúensuvef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) og Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).

Samantekt og mat á inflúensunni síðastliðnar vikur. Inflúensan virðist vera að byrja að breiðast út í samfélaginu um þessar mundir eins og fyrri ár.

RSV og aðrar öndunarfæraveirur. Samkvæmt upplýsingum frá veirufræðideild Landspítala hefur samtals 41 einstaklingur greinst með staðfesta Respiratory Syncytial veirusýkingu (RSV) frá miðjum nóvember, sjá töflu á vef veirufræðideildar Landspítala. Börn á fyrsta og öðru aldursári greinast hlutfallslega oftast með RSV en veiran hefur einnig verið staðfest hjá öðrum aldurshópum, einkum meðal aldraðra, sem ásamt ungbörnum eru þekktur áhættuhópur.

Meltingarfærasýkingar. Fjöldi tilkynninga frá heilsugæslunni og bráðamóttökum um niðurgang er eins og gera má ráð fyrir á þessum árstíma, sjá mynd 2.

Talsvert hefur greinst af nóró- og adenóveirum frá því í september. Lítið hefur verið um rótaveiru á þessu tímabili.

Sóttvarnalæknir