Fara beint í efnið

19. janúar 2018

Flensur og aðrar pestir - 2. vika 2018

Heildarfjöldi þeirra sem greindust með inflúensu í síðustu viku var svipaður vikunni á undan en nokkur breyting var á hlutfalli inflúensu A og B greininga.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Staðfest inflúensa á veirufræðideild Landspítala í 2. viku 2018. Heildarfjöldi þeirra sem greindust með inflúensu í síðustu viku var svipaður og í vikunni á undan en nokkur breyting var á hlutfalli inflúensu A og B greininga. Fleiri greindust með inflúensu B en samtímis dró úr fjölda þeirra sem greindust með inflúensu A, sjá vef veirufræðideildar Landspítala.

Við nánari skoðun á inflúensu A veirustofnum sést að sjö greindust með inflúensu A(H3) en fimm einstaklingar með Inflúensu A(H1)pdm09. Borið sama við inflúensugreiningar vikunnar á undan (1. viku 2018) sést að færri greinast með A(H3) en aukning er á A(H1)pdm09. Þessi þróun er í samræmi við stöðuna á meginlandi Evrópu en þar er inflúensa B algengasta greiningin og fleiri greinast með inflúensu A(H1)pdm09 en A(H3). Hér á landi greinist inflúensan oftast hjá öldruðum því 18 af alls 32 einstaklingum voru 65 ára eða eldri, en stöku börn og fólk á öðrum aldri greinast einnig með inflúensu.

Inflúensan í heilsugæslu og á bráðamóttökum. Enn fjölgar þeim sem greinast með inflúensulík einkenni í heilsugæslunni og bráðamóttökum, sjá mynd 1.

Staðan á meginlandi Evrópu. Inflúensan eykst nú á meginlandi Evrópu en hægt er að sjá nánari upplýsingar á inflúensuvef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Bæði inflúensa A og inflúensa B greinist.

Innlagnir vegna inflúensu á Landspítala. Samkvæmt upplýsingum frá sýkingavarnadeild Landspítala var svipaður fjöldi inniliggjandi með inflúensu á Landspítala í 2. viku borið saman við vikuna á undan. Mynd 2 sýnir aldurdreifingu þeirra sem hafa þurft innlagnar við vegna inflúensu frá því í 37. viku 2017. Flestir sem leggjast inn vegna inflúensu eru einstaklingar með undirliggjandi sjúkóma eða aldraðir.

RSV og aðrar öndunarfæraveirur. Í síðustu viku var aukning á fjölda þeirra sem greindust með Respiratory Syncytial veirusýkingu (RSV), en veiran var staðfest hjá 29 einstaklingum, eins og sjá má á vef veirufræðideildar Landspítala. Þar af voru 15 börn á fyrsta og öðru aldursári en veiran hefur einnig verið staðfest hjá öðrum aldurshópum, einkum meðal aldraðra, sem ásamt ungabörnum er þekktur áhættuhópur. Á sl. fjórum vikum hafa samtals 22 einstaklingar greinst með human metapneumóveiru sem getur valdið svipuðum einkennum og RSV gerir hjá börnum.

Samantekt og mat á öndunarfæraveirum síðastliðnar vikur. Bæði Inflúensa A og B breiðast út í samfélaginu og er hún oftast staðfest hjá fullorðnum og öldruðum. Töluvert álag er á Landspítala vegna öndunarfærasýkinga, en þeir sem leggjast inn með inflúensu eru aðallega einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma eða aldraðir. RSV-veiran virðist einnig breiðast út og greinist oftast hjá ungum börnum og öldruðum einstaklingum, einnig er nokkuð um metapneumóveirusýkingar.

Meltingarfærasýkingar. Nokkuð er um niðurgang samkvæmt tilkynningum frá heilsugæslunni og bráðamóttökum, sjá mynd 3. Stöku einstaklingar greindust með iðrakveisuveirur í viku hverri, bæði nóró- og sapóveirur greinast, en auk þess er nokkuð um rótaveiru sem oftast finnst hjá ungum börnum, sjá nánar á vef veirufræðideildar Landspítala.

Sóttvarnalæknir