Fara beint í efnið

28. mars 2019

Flensur og aðrar pestir - 12. vika 2019

Inflúensa A var staðfest hjá 25 einstaklingum, sem er aðeins færri vikuna á undan. Þar af voru níu einstaklingar með inflúensu A(H1N1)pdm09 og 16 með inflúensu A(H3N2).

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Staðfest inflúensa á veirufræðideild Landspítala. Inflúensa A var staðfest hjá 25 einstaklingum í viku 12, sem er aðeins færri en í vikunni á undan. Þar af voru níu einstaklingar með inflúensu A(H1N1) pdm09 og 16 með inflúensu A(H3N2). Alls greindust 22 einstaklingar með staðfesta inflúensu á Landspítala, sem er aðeins fleiri en í undanfarandi viku, þar af voru 11 inniliggjandi. Aðeins tveir hafa greinst með inflúensu af B-stofni það sem af er þessum vetri.

Inflúensan í heilsugæslu og á bráðamóttökum. Alls 75 einstaklingar leituðu til heilsugæslunnar og á bráðamóttökur með einkenni inflúensu samkvæmt klínísku mati læknis, sem er aðeins færri en í vikunni á undan.

Staðan á meginlandi Evrópu. Aðeins virtist draga úr inflúensu á meginlandi Evrópu, inflúensan var útbreidd í þriðjungi landa á svæðinu en hægt er að sjá nánari upplýsingar á sameiginlegum inflúensuvef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) og Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Yfirlit fyrir 12. viku ársins 2019 hefur ekki verið birt þegar þetta er ritað.

Samantekt og mat á inflúensunni síðastliðnar vikur. Þeim sem voru með inflúensu að klínísku mati læknis, fækkaði aðeins í síðustu viku, sem endurspeglar væntanlega fjölda tilfella í samfélaginu. Samtímis dró aðeins úr fjölda þeirra sem greindust með staðfesta inflúensu. Fjölda þeirra sem leitaði á Landspítala með inflúensu jókst aðeins, sem gæti endurspeglað þá sem eru lengi veikir og/eða fá fylgikvilla í kjölfar inflúensunnar. Sennilega mun draga úr inflúensunni á næstu vikum.

RSV og aðrar öndunarfæraveirur. Respiratory Syncytial veirusýking (RSV), var staðfest hjá fjórum einstaklingum í síðustu viku. Börn á fyrsta og öðru aldursári greinast hlutfallslega oftast með RSV en veiran hefur einnig verið staðfest hjá öðrum aldurshópum, einkum meðal aldraðra, sem ásamt ungbörnum er þekktur áhættuhópur. Síðastliðnar tvær vikur hafa alls 13 greinst með human metapneumoveiru (hMP), sem er nokkur aukning, en þessi veira getur valdið öndunarfæraeinkennum og áhættuhóparnir eru svipaðir og við RSV.

Meltingarfærasýkingar. í síðustu viku var fjöldi tilkynninga frá heilsugæslunni og bráðamóttökum um niðurgang sambærilegur við fjölda síðustu ára, en í febrúar og það sem af er mars var fjöldi tilkynninga lægri en á sambærilegum árstíma síðustu ára.

Í síðustu viku var rótaveira staðfest hjá tveimur einstaklingum og adenóveira staðfest hjá þremur.

Sóttvarnalæknir