Fara beint í efnið

10. janúar 2020

Flensur og aðrar pestir - 1. vika 2020

Á síðustu vikum hefur orðið aukning í fjölda þeirra sem greinast með staðfesta inflúensu.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Staðfest inflúensa á veirufræðideild Landspítala og fjöldi sýna. Á síðustu vikum hefur orðið aukning í fjölda þeirra sem greinast með staðfesta inflúensu. Flestir hafa verið með inflúensu A(H3) en í lok nóvember var inflúensa A(H1)pdm09 staðfest í fyrsta sinn á þessum vetri og síðastliðnar þrjár vikur hefur sá stofn greinst vikulega hjá 4–5 einstaklingum. Frá því um mánaðarmótin september-október hafa samtals 80 einstaklingar verið með staðfesta inflúensu, þar af 57 með inflúensu A(H3), 17 með inflúensu A(H1)v og sex með inflúensu B.

Inflúensan í heilsugæslu og á bráðamóttökum. Á síðustu vikum hefur þeim fjölgað sem leita til læknis með einkenni inflúensu samkvæmt upplýsingum frá heilsugæslunni og bráðamóttökum.

Innlagnir á sjúkrahús. Í desember lögðust þrír einstaklingar inn á sjúkrahús með inflúensu, þar af voru tveir fullorðnir um áttrætt með inflúensu A(H3) og eitt barn með inflúensu A(H1)pdm09.

Staðan á meginlandi Evrópu. Inflúensan hefur aukist í Evrópu, bæði inflúensa A(H3 og H1pdm09) og inflúensa B eru að greinast, sjá nánar á sameiginlegum inflúensuvef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) og Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).

Samantekt og mat á inflúensunni síðastliðnar vikur. Frá því í byrjun október hefur inflúensa verið staðfest hjá 80 einstaklingum og nú fjölgar þeim sem eru með inflúensulík einkenni samkvæmt klínísku mati læknis. Því má gera ráð fyrir að útbreiðsla inflúensunnar aukist á næstu vikum.

RSV og aðrar öndunarfæraveirur. Í fyrstu viku desembermánaðar var fyrsta Respiratory Syncytial veirusýking (RSV) þessa vetrar staðfest og á síðustu vikum hafa 1–3 einstaklingar greinst vikulega með veiruna. Töluvert hefur greinst af parainflúensu-1 og rhinoveiru. Vikulega greinast einnig stöku tilfelli af Human Metapneumóveiru (hMPV) auk adenó- og enteróveiru.

Meltingarfærasýkingar. Fleiri leituðu á heilsugæsluna og á bráðamóttökur með niðurgang í október og nóvember borið saman við meðaltal á sama tímabili síðastliðin ár. Fyrstu vikuna í desember dró svo aðeins úr niðurgangnum en í 2. viku desember sást aukning að nýju eins og oft má sjá rétt fyrir jól. Fjöldi niðurgangstilfella fyrstu viku nýja ársins var ekki umfram það sem gera má ráð fyrir.

Í október og nóvember voru óvenjumargir með staðfesta sýkingu af völdum nóróveiru, en nokkuð dró úr fjölda greininga í desember. Auk þess bárust upplýsingar um sýkingahrinur af völdum nóróveiru í daggæslum barna, á dvalar- og hjúkrunarheimilum og á stórum vinnustöðum. Líklegt er að þessi aukning á niðurgangi endurspegli óvenjumikla útbreiðslu á nóróveiru í samfélaginu.

Fyrr í vetur greindist töluvert af adenóveiru í saursýnum, en í desember fækkaði þeim greiningum aðeins. Einnig hafa stöku einstaklingar verið með astróveiru, en einungis tveir hafa verið með rótaveiru frá því í október.

Sóttvarnalæknir