Fara beint í efnið

7. janúar 2022

Ferðamenn hvattir til að fara í COVID-próf í flugstöð strax við komuna

Gríðarleg aukning hefur orðið undanfarið á þeim fjölda einstaklinga sem greinast með COVID-19 við komu til landsins erlendis frá.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Gríðarleg aukning hefur orðið undanfarið á þeim fjölda einstaklinga sem greinast með COVID-19 við komu til landsins erlendis frá. Ástæður þessa er umfang smita í öðrum löndum og útbreiðsla ómíkron afbrigðis sem er bæði meira smitandi en delta afbrigðið og sleppur frekar undan vernd bólusetningar. Flestir sem greinast nú hérlendis eru með ómíkrón afbrigðið. Ferðamenn með tengsl við Ísland er skylt að fara í COVID-próf á næstu tveimur dögum eftir komu til landsins skv. reglugerð.

Sóttvarnalæknir vill hvetja þessa ferðamenn að fara í PCR-próf strax við komuna (í flugstöð). Þá eru þessir ferðamenn beðnir að halda sem mest kyrru fyrir þangað til að niðurstaða sýnatöku berst þó þeim sé ekki skylt að vera í sóttkví. Þeir sem halda sig til hlés á meðan niðurstöðu er beðið og reynast svo smitaðir minnka þannig líkurnar á að smita aðra eða að aðrir þurfi að sæta sóttkví vegna útsetningar. PCR-próf er áreiðanlegra en hraðpróf og niðurstöður PCR-prófs berast almennt eftir nokkar klukkustundir.

Í forskráningu skráir ferðamaður ef tengsl eru við Ísland og þá er hægt að velja sýnatökustað annað hvort á Keflavíkurflugvelli (PCR) eða utan flugstöðvar.

Sóttvarnalæknir