Fara beint í efnið

2. október 2018

Eru Íslendingar illa undirbúnir fyrir næsta heimsfaraldur inflúensu?

Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Magnúsi Gottfreðssyni smitsjúkdómalækni að „Íslendingar séu furðu illa búnir undir næstu spænsku veiki“.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Magnúsi Gottfreðssyni smitsjúkdómalækni að „Íslendingar séu furðu illa búnir undir næstu spænsku veiki“. Fréttin í Fréttablaðinu er að öllu leyti í samræmi við ritstjórnargrein Magnúsar Í októberhefti Læknablaðsins. Forsendur þessarar ályktunar Magnúsar virðast vera þær, að þar sem að aðbúnaður/viðbúnaður á Landspítala sé ófullnægjandi þá sé Ísland almennt illa í stakk búið að mæta næsta heimsfaraldri Inflúensu. Einnig er fullyrt að birgðahaldi á lífsnauðsynlegum lyfjum og öðrum nauðsynjum sé ábótavant.

Sóttvarnalæknir telur nauðsynlegt að leiðrétta ýmislegt sem fram kemur í frétt Fréttablaðsins og ritstjórnargrein Læknablaðsins. Á undanförnum árum hefur mikil vinna verið innt af hendi af sóttvarnalækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra í samvinnu við ýmsa aðila í þjóðfélaginu við gerð viðbragðsáætlunar gegn heimsfaraldri inflúensu.

Slíkri áætlun er ætlað að auka viðbragðsþol samfélagsins sem mest þegar næsti faraldur skellur á. Að henni hafa komið fjölmargir aðilar og var síðasta útgáfa gefin út á árinu 2016. Mikilvægt er að hafa í huga að viðbrögð við alvarlegum farsóttum í framtíðinni er ekki aðeins hægt að dæma út frá aðbúnaði á Landspítala heldur einnig þeim viðbrögðum sem áætluð eru í samfélaginu öllu. Landspítali, sem og aðrar heilbrigðisstofnanir, munu vissulega gegna mikilvægu hlutverki þegar næsti heimsfaraldur inflúensu ríður yfir og mikilvægt að styrkja og bæta allan aðbúnað þar sem mest en aðbúnaður og samfélagsleg viðbrögð eru ekki síður mikilvæg.

Í þessu tilliti er rétt að árétta að hér á landi eru til birgðir af nauðsynlegum lyfjum og vökva til 3–4 mánaða, veirulyf fyrir 40.000 einstaklinga, miklar birgðir af hlífðarbúnaði og bóluefni hefur verið tryggt fyrir að minnsta kosti 150.000 einstaklinga.

Það er því ekki hægt að taka undir með Magnúsi að hér sé takmarkað birgðahald af lífsnauðsynlegum lyfjum og að Íslendingar séu illa búnir undir heimsfaraldur inflúensu.

Sóttvarnalæknir