Fara beint í efnið

3. febrúar 2020

Endurskoðaður norrænn samningur um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir ákveðnar heilbrigðisstéttir

Hinn 1. febrúar 2020 tók gildi endurskoðaður samningur um viðurkenningu á starfsréttindum ákveðinna starfsstétta innan heilbrigðisþjónustunnar. Samningurinn hefur verið kallaður Arjeplog-samningurinn og hefur verið í gildi frá árinu 1993 með breytingum frá 1998. Auglýsing um breyttan samning hefur verið birt á vef Stjórnartíðinda.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Hinn 1. febrúar 2020 tók gildi endurskoðaður samningur um viðurkenningu á starfsréttindum ákveðinna starfsstétta innan heilbrigðisþjónustunnar. Samningurinn hefur verið kallaður Arjeplog-samningurinn og hefur verið í gildi frá árinu 1993 með breytingum frá 1998. Auglýsing um breyttan samning hefur verið birt á vef Stjórnartíðinda.

Nú hafa aðildarríkin, Ísland, Noregur, Danmörk og Svíþjóð, staðfest að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2005/36/EB hafi orðið til þess að Arjeplog-samningurinn hafi glatað sjálfstæðu gildi sínu á tilteknum sviðum. Hins vegar tryggir umrædd tilskipun hvorki viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, sem menntaðir eru á Grænlandi, og hjúkrunarfræðinga og félags- og sjúkraliða sem menntaðir eru í Færeyjum, né heldur gagnkvæm upplýsingaskipti á milli Færeyja, Grænlands og samningsríkjanna. Því tekur endurskoðaður samningur til þeirra landa og tryggir að ofangreindar stéttir í Færeyjum og á Grænlandi fái viðurkenningu samkvæmt sömu kröfum og settar eru fram í fyrrgreindri tilskipun nr. 2005/36/EB.

Sjá upplýsingasíðu fyrir starfsleyfi heilbrigðisstarfsfólks.

Nánari upplýsingar veitir 

Anna Björg Aradóttir, verkefnisstjóri
netfang annabara@landlaeknir.is