Fara beint í efnið

2. júlí 2018

Endurskoðaður bæklingur um mataræði á meðgöngu

Komnar eru út á vegum Embættis landlæknis, í samstarfi við Matvælastofnun, Mæðravernd Þróunarstofu heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Rannsóknastofu í næringarfræði, endurskoðaðar ráðleggingar um mataræði fyrir barnshafandi konur – Mataræði á meðgöngu.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Komnar eru út á vegum embættis landlæknis, í samstarfi við Matvælastofnun, Mæðravernd Þróunarstofu heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Rannsóknastofu í næringarfræði, endurskoðaðar ráðleggingar um mataræði fyrir barnshafandi konur. Ráðleggingarnar eru ætlaðar konum sem hyggja á barneignir, barnshafandi konum, og konum með börn á brjósti.

Ráðlagður er venjulegur góður matur á meðgöngu
Lögð er áhersla á að konur þurfi ekki sérfæði þótt þær eigi von á barni. Venjulegur matur, fjölbreyttur og hollur í samræmi við ráðleggingar embættis landlæknis um mataræði, fullnægir bæði þörfum barnsins og móðurinnar með fáeinum undantekningum.

Barnshafandi konum er til dæmis ráðlagt að taka B-vítamínið fólat (fólasín) í töfluformi og gæta þess sérstaklega að borða fólatríkar matvörur. Einnig er barnshafandi konum eins og öðrum ráðlagt að taka D-vítamín aukalega. Vakin er athygli á aukinni þörf fyrir joð á meðgöngu en það er mikilvægt fyrir eðlilegan þorska fósturs. Helstu joðgjafar fæðisins eru fiskur og mjólk. Einnig er ómega-3 fitusýran, DHA, sérstaklega mikilvæg fyrir þroska miðtaugakerfis fóstursins. Ein máltíð af feitum fiski (t.d. laxi, bleikju, síld og makríl) auk tveggja máltíða af mögrum fiski (t.d. ýsu og þorski) á viku fara langleiðina með að uppfylla þörfina fyrir DHA en einnig er lýsi góður DHA gjafi.

Bent er á að rétt meðhöndlun matvæla er sérstaklega mikilvæg á meðgöngu og ýmis hrá matvæli eins og grafinn eða reyktan fisk, hrátt kjöt, hrá egg, hráar baunaspírur, ógerilsneydda mjólk og vörur úr ógerilsneyddri mjólk er best að varast á þessum tíma.

Ráðleggingarnar eru unnar af faghópi með fulltrúum frá embætti landlæknis, Matvælastofnun, Þróunarstofu heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Rannsóknastofu í næringarfræði og Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Við endurskoðunina var stuðst við Norrænar næringarráðleggingar frá árinu 2012, ýmsar vísindagreinar og einnig efni af vefnum Næring móður og barns. 

Elva Gísladóttir og Hólmfríður Þorgeirsdóttir
verkefnisstjórar næringar hjá embætti landlæknis