Fara beint í efnið

25. nóvember 2019

Embætti landlæknis hefur lokið hlutaúttekt sinni á Reykjalundi

Embætti landlæknis hefur lokið hlutaúttekt sinni á Reykjalundi, endurhæfingarmiðstöð SÍBS. Niðurstöður hennar og ábendingar landlæknis hafa verið kynntar framkvæmdastjórn Reykjalundar, sem og starfsfólki stofnunarinnar. Jafnframt hefur heilbrigðisráðherra verið upplýstur um niðurstöðurnar.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Embætti landlæknis hefur lokið hlutaúttekt á Reykjalundi, endurhæfingarmiðstöð SÍBS. Niðurstöður hennar og ábendingar landlæknis hafa verið kynntar framkvæmdastjórn Reykjalundar, sem og starfsfólki stofnunarinnar. Jafnframt hefur heilbrigðisráðherra verið upplýstur um niðurstöðurnar.

Þessi hlutaúttekt var unnin að frumkvæði embættis landlæknis en í samráði við heilbrigðisráðuneytið og Sjúkratryggingar Íslands (SÍ). Tilefni hennar var ágreiningur milli stjórnar SÍBS og stjórnenda Reykjalundar annars vegar og ákveðins hóps starfsfólks á Reykjalundi hins vegar og sú atburðarás sem átti sér stað í kjölfarið.

Ekki var uppi grunur um að meiriháttar brestur hefði orðið á þeirri heilbrigðisþjónustu sem veitt er á Reykjalundi. Hins vegar vildi landlæknir öðlast dýpri skilning á þeirri stöðu sem upp var komin og þá sérstaklega komast að því hvort sá háværi ágreiningur sem var á Reykjalundi gæti, eða hefði, komið niður á mikilvægri teymisvinnu heilbrigðisstarfsfólks og meðferð sjúklinga á stofnuninni.

Helstu ábendingar eru:

  • Vinna úr þeirri vanlíðan sem hefur skapast hjá starfsfólki. Ein leið gæti verið að vinna að samskiptasáttmála líkt og Landspítali hefur gert.

  • Tryggja að stjórnir frjálsra félagasamtaka, í þessu tilviki SÍBS, sem eru á samningi við SÍ um veitingu heilbrigðisþjónustu hlutist ekki til um faglegan rekstur slíkra stofnana. Slíkt má skilyrða í samningi við SÍ.

  • Endurskoða skipurit í samvinnu við starfsfólk stofnunarinnar, gera það skýrara og tengja það við hlutverk stofnunar og framtíðarsýn.

Fyrirspurnum vegna hlutaúttektarinnar skal beina til
Kjartans Hreins Njálssonar, aðstoðarmanns landlæknis
kjartanh@landlaeknir.is
sími 510-1900.